Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ragnheiður Sara tryggði sig inn á heimsleikana

Mynd með færslu
Ragnheiður Sara þurfti að draga sig úr keppni vegna meiðsla. Mynd: Síða Crossfit Games - RÚV

Ragnheiður Sara tryggði sig inn á heimsleikana

24.02.2019 - 20:45
Hreystikonan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir tryggði sér í dag farseðilinn á heimsleikana í crossfit sem fara fram í Wisconsin í Bandaríkjunum í ágúst.

Sara vann Strength in Depth-mótið sem fór fram í Lundúnum um helgina sem gefur henni sæti á leikunum. Hún fetar þar með í fótspor Katrínar Tönju Davíðsdóttur sem tryggði sitt sæti á leikunum er hún vann mót í Suður-Afríku á dögunum.

Sara var í toppsæti mótsins eftir fyrri daginn í gær og hún bætti stöðu sína þegar hún vann fyrri grein dagsins. Í síðari greininni lenti hún í öðru sæti sem dugði henni til sigurs í heildarkeppninni.

Sara lauk keppni með 682 stig en í öðru sæti var Jamie Greene með 638 stig. Þriðja var hin bandaríska Danie Speegle með 602 stig á undan Þuríði Erlu Helgadóttir sem lenti í fjórða sæti mótsins.

Sara þurfti að draga sig úr keppni á leikunum í fyrra vegna meiðsla en nú hefur hún tækifæri til að bæta fyrir þau vonbrigði.