Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ragnheiður ósammála Gunnari

17.03.2015 - 15:02
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti Alþingi nú á þriðja tímanum munnlega skýrslu sína um Evrópumál og atburðarás undanfarinna daga og það bréf sem hann hefur nú afhent formanni Evrópusambandsins.

Gunnar Bragi sagði í upphafi máls síns að ákvörðun hans og bréfið sé á traustum stjórnskipulegum grunni. Hann sagði að með kosningaúrslitum vorið 2013 hafi stefna fyrri ríkisstjórnar lotið í lægra haldi fyrir stefnu núverandi ríkisstjórnar. Engum eigi að dyljast að núverandi ríkisstjórn vilji binda enda á þetta ferli. Með bréfi sínu til Evrópusambandsins sé aðildarferlinu lokið og Ísland hafi óskað eftir því að vera ekki lengur umsóknarríki. Nú sé málið í höndum ESB og hvaða svör þau muni gefa.

Utanríkisráðherra segist ekki eiga von á öðru en að Evrópusambandið fallist á þessa beiðni íslenskra stjórnvalda. Hann segir enga ástæðu til að efast um þessa vegferð stjórnvalda og umræða um annað sé fyrirsláttur og til þess fallin að afvegaleiða umræðuna.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa skipst á að spyrja stjórnarþingmenn, undir liðnum störf þingsins á Alþingi, um afstöðu þeirra til aðgerða ríkisstjórnarinnar um að senda bréf þar sem farið er fram á að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki. Flestir standa með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og segja hana hafa fullt umboð til þess.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins ítrekaði afstöðu sína um að hún teldi þá þingsályktun sem samþykkt var í júlí 2009, um að sækja um aðild að Evrópusambandinu, væri í fullu gildi. Persónulega sé hún ekki hlynnt þeirri leið sem ríkisstjórnin hafi ákveðið að fara í þessu máli en Ragnheiður greiddi atkvæði með því að sækja um aðild að ESB árið 2009. Katrín Júlíusdóttir varaformaður Samfylkingarinnar varpaði fram þeirri spurningu hvort það væri að afhjúpast hér að ríkisstjórnin þyrði ekki að leggja tillögu fram um að slíta aðildarviðræðum því hún hefði ekki meirihluta fyrir henni.