Ragnheiður Elín mátti ekki bera lánsskartgripi

04.04.2018 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Forsætisráðuneytið lagðist gegn því árið 2014 að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fengi lánaða skartgripi frá gullsmiði til að bera opinberlega. Það þótti ekki samrýmast siðareglum ráðherra. Ragnheiður Elín mátti hins vegar fara í ferð til Washington með WOW air, Sigríður Andersen dómsmálaráðherra mátti fá greitt fyrir greinaskrif í Morgunblaðið og Óttar Proppé heilbrigðisráðherra mátti vera í hljómsveit.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, óskaði í febrúar eftir upplýsingum um það hversu oft aðrir ráðherrar hefðu leitað til forsætisráðuneytisins frá árinu 2013 til að fá ráðgjöf um túlkun siðareglna eða samþykki vegna aukastarfa ráðherra. Í svari til þingmannsins kom fram að sex slík tilvik hefðu fundist í málaskrá ráðuneytisins. Fréttastofa óskaði í kjölfarið eftir því við forsætisráðuneytið að fá upplýsingar um þessi sex tilvik. Svarið barst í dag.

Stjórnarráð Íslands við Lækjargötu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Forsætisráðuneytið er til húsa í stjórnarráðshúsinu.

Dýr þjónusta sem stendur ekki öðrum til boða

Fyrsta málið varðar beiðni frá aðstoðarmanni Ragnheiðar Elínar í október 2014 um að Ragnheiður Elín fengi að bera skartgripi opinberlega sem gullsmiður hafði boðist til að lána henni. Ekki yrði um gjöf að ræða heldur mundi Ragnheiður Elín skipta um gripi reglulega. „Ráðherra óskaði eftir því við mig að kanna við þig hvort þetta standist ekki örugglega siðareglur ráðherra,“ segir í tölvupósti aðstoðarmannsins til forsætisráðuneytisins.

Niðurstaða ráðuneytisins var að slíkur samningur samrýmdist tæplega siðareglum ráðherra og ekkert varð af samningsgerðinni, segir í svarinu til fréttastofu. „Vissulega er hér ekki um að ræða gjöf í eiginlegum skilningi. Hins vegar er verið að bjóða ráðherra þjónustu sem að öllum líkindum myndi venjulega kosta talsverða fjármuni, þ.e. að fá skartgripi leigða. Henni yrði sem sagt ekki boðin þessi þjónusta nema vegna þess að hún er ráðherra og þekktur stjórnmálamaður. Skiptir þá ekki öllu máli hvor eigi frumkvæðið að þessu fyrirkomulagi,“ segir í svari ráðuneytisins til aðstoðarmannsins.

Ráðherrar eigi að fara mjög varlega í að greiða götu fyrirtækja innanlands. Mögulegt væri að ráðherra kynnti íslenska hönnun erlendis, til dæmis með að bera skartgripi fengna að láni. „En þá yrði að gæta jafnræðis og skuldbinda sig ekki gagnvart einu fyrirtæki,“ segir í svarinu.

Ný Airbus A320neo-þota WOW air.
 Mynd: WOW air
WOW air.

Skiptar skoðanir í ráðuneytinu á boðsferðum flugfélaga

Næsta tilvik var í apríl 2015. Aftur var það aðstoðarmaður Ragnheiðar Elínar sem leitaði til forsætisráðuneytisins vegna fyrirhugaðrar þátttöku ráðherra í jómfrúarferð WOW air til Washington-borgar í Bandaríkjunum. Hjá aðstoðarmanninum kom fram að Ragnheiður Elín hefði farið í sambærilega ferð til Edmonton í Kanada árið áður.

Lögfræðingur forsætisráðuneytisins svaraði símleiðis að skiptar skoðanir væru á því innan ráðuneytisins hvort ferð sem þessi samræmdist siðareglunum. Þrátt fyrir það væri verjandi að ráðherra þæði boðsferð af þessu tagi þegar um væri að ræða nýbreytni í starfsemi íslenskra fyrirtækja. Þá hafi jafnræði einnig spilað inn í, því að áður hefði Icelandair fengið stuðning af þessu tagi frá ráðherrum.

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Seta í stjórn Borgarleikhússins gæti valdið árekstrum

Þriðja málið kom upp í janúar 2017. Þá spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hún fengi samþykki fyrir því að sitja í stjórn Leikfélags Reykjavíkur og þiggja fyrir það rúmar 100 þúsund krónur á mánuði. Þá upplýsti Þorgerður Katrín einnig um ólaunaða setu sína í stjórn Þroskahjálpar og Golfsambands Íslands.

Forsætisráðuneytið lagði taldi að greiðslurnar frá Borgarleikhúsinu væru innan hóflegra marka í skilningi siðareglna ráðherra. Hins vegar var athygli Þorgerðar vakin á því að Leikfélag Reykjavíkur væri sjálfseignarstofnun og að mestu háð opinberum fjárframlögum.

„Við þessar aðstæður er ekki loku fyrir það skotið að hagsmunaárekstrar kunni að verða á milli ráðherrastarfa og setu í stjórn Leikfélags Reykjavíkur. Í þessu samhengi skal tekið fram að staða ráðherra sem stjórnarmanns í félagi getur ein og sér verið til þess fallin að önnur stjórnvöld leitist við að greiða götu félagsins án þess að til komi bein eða óbein fyrirmæli ráðherra eða önnur afskipti,“ segir í svarinu. Ekki er að sjá að bein afstaða hafi verið tekin til þess hvort stjórnarsetan samrýmdist siðareglunum en tiltekið að hver og einn ráðherra skuli gæta að því fyrir sig.

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Óttarr Proppé með hljómsveitinni HAM.

Beðinn að upplýsa um greiðslur fyrir tónleikahald

Fjórða tilvikið kom einnig upp í janúar 2017. Þá vildi Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra vita hvort þátttaka í starfi hljómsveitar samrýmdist siðareglum ráðherra. Þá lá fyrir að þrennir tónleikar væru fyrirhugaðir á árinu. Hann spurði hvort hann mætti þiggja greiðslu fyrir eða hvort þeir samrýmdust bara siðareglunum ef hann fengi ekkert greitt.

Ráðuneytið greindi Óttari frá því að hljómsveitarstörfin teldust tilfallandi verkefni og væru því í lagi, þótt hann þyrfti að gæta sérstaklega að hagsmunaárekstrum í framhaldinu ef kæmi til opinberra styrkveitinga til tónleikahalds. Hann var einnig beðinn að greina ráðuneytinu frá greiðslum sem hann fengi fyrir tónleikahaldið.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Sigríður Andersen.

Hóflegar greiðslur fyrir umfangslítil ritstörf

Í mars 2017 barst fimmta fyrirspurnin. Hún var frá Sigríði Andersen dómsmálaráðherra sem óskaði eftir samþykki fyrir því að fá að rita hálfsmánaðarlegar greinar í Morgunblaðið fyrir 7.000 krónur á hverja grein. Þetta hafði Sigríður gert um árabil þegar hún varð ráðherra.

Forsætisráðuneytið svaraði Sigríði á þann veg að þessi aukastörf samrýmdust siðareglum ráðherra, einkum með hliðsjón af því að afrakstur starfanna birtist opinberlega og að þeirra væri getið í hagsmunaskrá ráðherra á vef Alþingis. Greiðslurnar væru innan hóflegra marka og ritstörfin „umfangslítil“.

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.

„Sérstaklega varhugavert“ að þiggja boðsferð AMIS

Sjötta fyrirspurnin var frá Kristjáni Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóra í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, einnig í mars 2017. Hún varðaði fyrirhugaða þátttöku Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ráðherra iðnaðar, ferðamála og nýsköpunar, í boðsferð Amerísk-íslenskra viðskiptaráðsins (AMIS) til Washington. Í erindi Kristjáns kom fram að ráðuneytið hygðist borga ferðakostnað Þórdísar en að AMIS hefði boðist til að greiða kostnað fyrir maka hennar og barn.

Forsætisráðuneytið lagðist gegn því að AMIS greiddi fyrir mann og barn Þórdísar. Þá var í svarinu ýjað að því að Þórdís sjálf ætti mögulega ekki að taka þátt í ferðinni heldur. „Forsætisráðuneytið hefur kynnt sér dagskrá ferðarinnar. Þar er ekki sérstaklega gert ráð fyrir aðkomu ráðherra eða fjölskyldu hans,“ segir í svari ráðuneytisins til Kristjáns.

AMIS væri tengslanet fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem vildu efla og viðhalda viðskiptatengslum milli Bandaríkjanna og Íslands og stæði vörð um viðskiptatengda hagsmuni félaga sinna gagnvart amerískum og íslenskum yfirvöldum.

„Eðli málsins samkvæmt verður að telja sérstaklega varhugavert að ráðherrar eða fjölskyldur þeirra þiggi gjafir eða boðsferðir frá félagasamtökum sem hafa slíkan tilgang, sér í lagi þegar ætla má að ráðherra þurfi að beita sér sérstaklega í málum sem varða aðila þeirra,“ segir í svari ráðuneytisins. „Gæta verður þess í hvívetna að ekki megi draga í efa hæfi ráðherra til að taka ýmist ívilnandi eða íþyngjandi ákvarðanir sem haft geti áhrif á hagsmuni félaga sem standa að viðskiptaráðinu.“

Enn fremur sér forsætisráðuneytið ástæðu til að vekja athygli ráðuneytisstjórans á því að þegar leitað hafi verið ráðgjafar vegna ferðar Ragnheiðar Elínar, forvera Þórdísar á ráðherrastóli, með WOW tveimur árum fyrr, hafi verið „skýrlega tekið fram að boð félagsins til maka ráðherra hefði verið afþakkað. Ætla verður að sömu sjónarmið og þá voru lögð tíl grundvallar eigi við þegar tekin verður ákvörðun um hvort umrætt boð AMlS verði þegið,“ segir í svari forsætisráðuneytisins.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi