Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Raggi Bjarna veitti Páli Óskari fjármálaráðgjöf

Mynd: RÚV / RÚV

Raggi Bjarna veitti Páli Óskari fjármálaráðgjöf

28.02.2020 - 13:27

Höfundar

Eftir að Páll Óskar gaf út plötuna Deep Inside Paul Oscar árið 1999 lenti hann í miklum fjárhagsvandræðum þar sem að platan seldist illa. Páll Óskar segist aldrei hafa farið vel með peninga en eftir að hafa fengið fjármálaráðgjöf frá Ragga Bjarna eyðir hann nú í sparnað.

Páll Óskar hafði verið iðinn við plötuútgáfu frá árinu 1993 og allar hans plötur höfðu selst vel áður en platan Deep Inside Paul Oscar kom út árið 1999. Páll Óskar segist algjörlega hafa þurft að hugsa lífið upp á nýtt og hafði aðeins efni á lífsnauðsynjum

„Ég þurfti algjörlega að hugsa allt mitt líf upp á nýtt. Ég hafði ekki efni á að leigja mér íbúð eða neitt. Ég þurfti að minnka líf mitt niður í bráðustu lífsnauðsynjar. Pabbi var nógu næs til að leyfa mér að gista í gamla unglingaherberginu mínu niðri í kjallara. Ég þurfti að fara að gera eitthvað annað vegna þess að þegar að þú ert has-been poppstjarna hringir síminn ekki neitt.“ 

Páll Óskar segist þarna hafa upplifað í fyrsta skipti á sínum ferli að síminn hringdi ekki og hann þyrfti að huga að öðrum starfsvettvangi. Hann segist hafa horft í kringum sig og reynt að finna út hvað hann vildi gera, hvort hann ætti að fara að vinna í ísbúð, á myndbandsleigu eða fara aftur að vinna á geðdeild Landspítalans. 

Páll Óskar segir að hann hafi alltaf verið gott dæmi um brjálaðan listamann sem eyðir öllum sínum peningum í list eftir aðra. Hann eigi til að mynda veglegt plötusafn, geisladiskasafn auk þess sem hann safni kvikmyndum. 

Í dag segist Páll Óskar þó passa sig á því að eyða í sparnað og hann borgi því í lífeyrissjóð, viðbótarlífeyrissparnað og fleira. Ástæðan fyrir því að Páll Óskar passar sig á þessu er Raggi Bjarna. 

„Á einu af þessum Milljarðamæringaböllum varð okkur vel til vina og hann sér kannski strax hvað er að fara í gang með mig.“ Páll segir að eitt það fyrsta sem Raggi hafi sagt við sig hafi verið, „Palli, þú verður að fara vel með peningana þína, þú verður að kaupa þér íbúð, verður að kaupa þér fasteign.“

„Raggi hafði marga fjöruna sopið og hann er sá sem ég hlustaði á. Ekki hlustaði ég á neitt annað fólk í kringum mig, ekki hlustaði ég á foreldra mína,“ bætti Páll Óskar við. 

Páll Óskar er gestur Rokklands á sunnudaginn. Í þættinum ræðir hann um samstarfið við Jóhann Jóhannsson og Örlyg Smára, það að vera fyrirmynd samkynhneigðra á Íslandi og um diskó. Hann talar um sviðsskrekk, æðri mátt, Fiðrik Ómar, plötusnúðinn Palla, Spotify, GDRN, andlega líðan, tónleikana sem eru fram undan í Háskólabíó og margt fleira.