Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rafvirki setur saman leikár Þjóðleikhússins

Mynd: RÚV / RÚV

Rafvirki setur saman leikár Þjóðleikhússins

13.06.2019 - 10:57

Höfundar

Í viðtali á Grímunni í gær uppljóstraði Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri því að það er ekki samstarfsverkefni margra að setja saman fjölbreytt leikár eins og margir halda heldur eins manns verk. „Það er hann Sæmundur Gíslason rafvirki sem hefur sett saman leikárið síðustu tólf ár. Hann er alveg ótrúlega snöggur að því.“

Það var fjölmenni við afhendingu Grímuverðlaunanna í gærkvöldi sem haldin var í Þjóðleikhúsinu. Samkvæmt leikkonunni Dóru Jóhannsdóttur er stemningin alltaf mest baksviðs á viðburðum sem þessum. Hún bauð áhorfendum að kíkja þangað með sér í gær og tók Ara Matthíasson Þjóðleikhússtjóra tali. 

„Það eru allir í skýjunum eftir leikárið en í ár var mesta aðsókn í leikhúsið í meira en fjörtíu ár,“ sagði Ari aðspurður hvernig árið hefði gengið.

„Það er gríðarlega spennandi leikár framundan,“ bætti hann við. Hann nefnir sem dæmi leikritið Shakespeare verður ástfanginn, Atómstöðina, Kardemommubæinn og Kópavogskróniku en öll þessi leikrit eru á dagskrá leikhússins á komandi leikári.

Þegar Dóra spyr Ara hvort það sé ekki samstarfsverkefni margra aðila að setja saman svo fjölbreytt leikár svarar Ari því neitandi. „Það er bara einn maður sem setur saman leikárið hjá Þjóðleikhúsinu. Það er hann Sæmundur Gíslason rafvirki sem hefur sett saman leikárið síðustu tólf ár. Hann er alveg ótrúlega snöggur að því.“

Inn í viðtalið laumar sér Sæmundur sjálfur, sem svipar mikið til leikarans Sverris Þórs Sverrissonar, en hann segir frá því hvernig hugmyndin að komandi leikári kviknaði. Hann setur það eigin sögn saman á aðeins einum göngutúr um bæinn og býður áhorfendum að kíkja með sér og fylgjast með ákvörðunarferlinu. Hægt er að sjá viðtalið og göngutúrinn örlagaríka í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ríkharður III sópaði að sér Grímum

Menningarefni

Þórhildur hlýtur heiðursverðlaun

Menningarefni

„Listin er andsvarið við neysluhyggju“