Raftæki og vökvi töfðu öryggisleit Tyrkjaflugs

10.06.2019 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Upplýsingafulltrúi Isavia segir að flugvallarstarfsmönnum hafi verið skylt að gera öryggisleit á öllum farþegum flugvélarinnar sem flutti tyrkneska karlalandsliðið í fótbolta til Íslands. Þetta sé vegna alþjóðlegra reglna um öryggisleit í flugi. Flugvélin tók á loft frá flugvelli sem er ekki hluti af skilgreindu heildstæðu öryggissvæði, One Stop Security, sem gildir fyrir flugvelli á evrópska efnahagssvæðinu. Því hafi allir þurft að fara í öryggisleit, tyrkneska landsliðið jafnt sem Íslendingar.

Tyrkir eru afar ósáttir við öryggisleitina, bæði leikmenn liðsins og stuðningsmenn þess. Íþróttafréttamönnum á Íslandi hafa borist hótanir vegna málsins. Það ku vera vegna þess að óþekktur einstaklingur gekk upp að landsliðsmanni Tyrkja með uppþvottabursta og þóttist ætla að taka við hann viðtal.

Í yfirlýsingu frá Isavia segir að öryggisleitin gangi venjulega fljótt fyrir sig. Hún tók hins vegar óvenju langan tíma í gærkvöld. Ástæðan er sú að sögn Isavia að leita þurfti að raftækjum og vökva í óvanalega mörgum töskum farþega með flugvélinni. Það var nauðsynlegt þar sem óskum um að fjarlægja slíkt úr töskum var ekki sinnt í öllum tilfellum, segir í yfirlýsingunni.

Jafnframt segir þar að allt ferlið á flugvellinum, frá því að flugvélin var komin í stæði og síðasti farþegi kominn út úr tollsalnum, hafi tekið um 80 mínútur að hámarki en ekki þrjá tíma eins og sumir hafa haldið fram. Flugvélin kom í stæði á Keflavíkurflugvelli þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í átta í gærkvöld. Síðustu farþegar voru komnir út um tollsalinn um klukkan níu.