Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Rafrettur geta ert slímhúð og öndunarveg

05.01.2017 - 11:45
Fáar rannsóknir eru til um hvaða áhrif rafrettur hafa á heilsuna en þó hefur verið sýnt fram á að minna heilsutjón verður af rafrettureykingum en sígarettureykingum og því hafa einhverjir talið þær betri kost. 

BBC heimildarmyndin Rafrettur- gæfa eða glapræði með Michael Mosley sem einna þekktastur er fyrir heimildarmyndir sínar um megrunarkúra og áhrif þeirra fjallar að þessu sinni um rafrettur og áhrif þeirra á heilsuna og umhverfið.  Myndin verður sýnd í kvöld á Rúv kl. 20:05 strax að loknu Kastljósi.

Í myndinni sem áhorfendur Kastljóss fengu að sjá brot úr í gær voru tekin sýni úr slímhúð og öndunarvegi Mosleys eftir að hann hafði reykt rafrettu í einn mánuð, hafandi aldrei reykt áður. Niðurstöðurnar úr sýnatökum voru í raun sláandi því eftir þennan skamma tíma greindust bólgur í öndunarvegi hans og í slímhúð hans hafði svokölluðum átfrumum fjölgað í lungunum en þær framkalla hvata sem geta skaðað öndunarveginn ef áreitið verður of mikið í langan tíma.  

Karl Andersen hjartalæknir segir þessar niðurstöður ekki koma á óvart. „Þetta er auðvitað aðskotahlutur fyrir lungun að anda að sér heitum nikótín vökva.“ Aðspurður hvort hann taki undir sjónarmið þeirra að rafrettur séu betri kostur fyrir reykingamenn sem vilja hætta að reykja þá segist hann ekki vilja fullyrða um hvort það sé betri kostur að reykja rafrettur á meðan rannsóknir um mögulega skaðsemi þeirra séu af skornum skammti. 

Karl segist hafa mikla áhyggjur af vaxandi notkun rafretta hjá börnum og ungmennum og samkvæmt könnununum sé það að aukast.  Hann segir einnig mjög alvarlegt mál að leyfa rafreyttureykingar í opinberum byggingum á meðan lítið sé vitað um hvaða áhrif óbeinar rafrettureykingar hafi, þær eigi að banna eins og hefðbundnar reykingar. 

helga.arnar's picture
Helga Arnardóttir
Fréttastofa RÚV