Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rafrettulög taka gildi í dag

01.03.2019 - 09:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný lög um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur taka gildi í dag. Í lögunum er kveðið á um innflutning, markaðssetningu, notkun og öryggi vörunnar og ráðstafanir til að sporna við notkun barna á rafrettum. Engin sérlög hafa gilt um rafrettur fyrr en nú.

Samkvæmt nýju lögunum skal ráðherra setja reglugerð með nánari ákvæðum um gæði, öryggi og innihaldslýsingar og tekur reglugerðin gildi 1. júní. Með henni er þeim sem flytja inn rafrettur og áfyllingar gefinn frestur til að laga sig að kröfum reglugerðarinnar varðandi merkingar umbúða.

Einnig er lagt til með ákvæði til bráðabirgða að heimilt verði að selja vörur sem ekki standast kröfur reglugerðarinnar en hafa fengið heimild til markaðssetningar fram til 1. september.

Reglugerðin sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest kveður á um að sambærilegar reglur gildi um sölu rafretta og áfyllinga og um sölu sígaretta. Á umbúðirnar þarf að setja merkingar um að níkótín sé mjög ávanabindandi.