Rafrænir tónleikar Ásgeirs Trausta í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Hljómahöllin

Rafrænir tónleikar Ásgeirs Trausta í kvöld

26.03.2020 - 11:28

Höfundar

Ásgeir Trausti kemur fram á tónleikum í Hljómahöllinni í kvöld. Þeir verða í beinni útsendingu á RÚV.is, Rás 2 og á Facebook-síðu Hljómahallarinnar.

Það virðist enginn skortur vera á tónleikum á Íslandi þrátt fyrir samkomubann. Hljómahöllin í Reykjanesbæ tilkynnti nýlega um tónleikaröð í samstarfi við Rokksafn Íslands sem kallast Látum okkur streyma. Nafnið vísar til þess að tónleikarnir fara fram fyrir tómu húsi en þeim verður hins vegar streymt til landsmanna í gegnum Facebook-síðu Hljómahallarinnar. Þá verða tónleikarnir einnig í beinni útsendingu á Rás 2 og streymt á vef RÚV.

Fyrstur til að stíga á svið er Ásgeir Trausti en tónleikar hans hefjast klukkan 20 í kvöld. Ásgeir Trausti gaf nýlega út plötuna Sátt sem kom einnig út á ensku undir nafninu Bury the Moon. Platan hefur hlotið afar góðar viðtökur gagnrýnenda jafnt sem aðdáenda og er þetta því frábært tækifæri fyrir landsmenn að sjá Ásgeir flytja lög af plötunni á tónleikunum í kvöld, í bland við sín þekktustu lög. 

Tómas Young er framkvæmdarstjóri Hljómahallarinnar og segir hann að þau ákváðu að fara af stað með þessa tónleikaröð þar sem gestir komast ekki á tónleika í húsinu lengur. „Við fórum út í að bjóða bæjarbúum og landsmönnum upp á tónlistartengda viðburði í gegnum streymi á netinu í ljósi þess að allir viðburðir féllu niður í Hljómahöll næstu vikurnar. Við skoðuðum því möguleikann á því að færa fólki tónleika og Rokksafns-tengda viðburði heim í stofu í ljósi þess að gestir komast ekki á tónleika í Hljómahöll og loka þurfti Rokksafni Íslands og úr varð þessi dagskrá. Markmiðið var að færa fólki menningu heim í stofu, skapa atvinnu fyrir listamenn og tæknifólk. Það voru allir mjög spenntir að taka þátt," segir Tómas.

Tómas vill ekki eigna sér heiðurinn að nafni tónleikaraðarinnar: „Það voru herramennirnir í Moses Hightower sem áttu hugmyndina að nafninu á dagskránni en ég hafði nefnt við þá þegar við vorum að skoða það að hafa streymistónleika með Moses Hightower að við værum ekki búin að komast í það að finna nafn á dagskrána og ef það kæmi eitthvað til þeirra í draumi mættu þeir láta mig vita. Þegar ég vaknaði daginn eftir biðu mín skilaboð í símanum; Látum okkur streyma. Þar með var það ákveðið."

Auk þess að bjóða upp á tónleikastreymi verður einnig boðið upp á rafræna viðburði þar sem Páll Óskar og Björgvin Halldórsson ræða um Rokksafnið og Dr. Gunni stýrir spurningakeppni í gegnum Facebook-síðu Hljómahallarinnar. 

Aðrar hljómsveitir sem stíga á svið á tónleikaröðinni Látum okkur streyma eru Móses Hightower, GDRN og Hjálmar.