Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rafrænar kosningar gætu aukið kjörsókn

31.10.2014 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Rafrænar kosningar í gegnum netið og persónukjör eru þeir þættir sem væru líklegastir til að auka kosningaþátttöku. Þetta kemur fram í rannsókn um ástæður dræmrar kjörsóknar í sveitarstjórnarkosningum í vor.

Kjörsókn í sveitarstjórnarkosningum í vor var sú dræmasta í lýðveldissögunni og er rannsókn Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og doktorsnema við Háskólann í Mannheim einn liðurinn í að kanna ástæður þess. Óspennandi valkostir og lítil áhrif hvers og eins voru helstu ástæðurnar sem fólk nefndi fyrir því að það mætti ekki á kjörstað.

Þau sem ekki greiddu atkvæði voru spurð um nokkra þætti og hvort þeir kynnu að verða til að auka líkur á að þau kysu. Sá valkostur sem fólk taldi líklegastan til að stuðla að aukinni kosningaþátttöku þess var rafræn kosning í gegnum netið. 65 prósent voru þessarar skoðunar. Karlar voru líklegri til að svara svona en konur og yngstu svarendur voru þrefalt líklegri til að vera þessarar skoðunar en elsta fólkið.

52 prósent sögðust frekar myndu kjósa ef persónukjör væri í boði. Þetta svar var algengast hjá fólki á aldrinum 30 til 44 ára, þar sögðust tveir þriðju líklegri til að kjósa ef velja mætti frambjóðendur þvert á flokka. Tæp 30 prósent sögðust frekar myndu kjósa væru kosningar á öðrum degi og fimmtungur taldi að bætt aðgengi að utankjörfundaratkvæðagreiðslum hefði aukið líkur á kosningaþátttöku þeirra.