Rafmögnuð kántríábreiða í tilefni nýrrar plötu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Rafmögnuð kántríábreiða í tilefni nýrrar plötu

11.06.2019 - 16:10
Tónlistarmaðurinn Daði Freyr gladdi netverja í dag með ábreiðu sinni af laginu Old Town Road með Lil Nas X sem hefur náð miklum vinsældum víða í heiminum undanfarið.

Lagið Old Town Road var gefið út í desember 2018 en vakti þó ekki athygli fyrr en því hafði verið deilt í appinu TikTok fyrr í ár. Það var fljótt að vinda upp á sig og Lil Nas X fékk plötusamning hjá Columbia Records og hefur meðal annars gefið út endurhljóðblöndun af laginu ásamt tónlistarmanninum Billy Ray Cyrus, sem er sennilega þekktastur fyrir að vera faðir söngkonunnar Miley Cyrus. 

Lagið komst á topp 20 lista Billboard „kántrílistans“ en var síðar tekið af honum þar sem það þótti ekki passa inn í flokk kántrílaga. Það kveikti í heitum umræðum um hver einkenni kántrítónlistar væru í rauninni en kom þó ekki í veg fyrir að lagið kæmist á topp Billboard Hot 100 listans þar sem það varð fimmta stysta lagið í sögu listans til að komast á toppinn og það stysta síðan 1965. 

Daði birti ábreiðuna í dag í tilefni þess að á miðnætti í kvöld gefur hann út sína aðra plötu. Á plötunni er meðal annars að finna lögin Skiptir ekki máli og Endurtaka mig sem hann hefur nú þegar gefið út, sem og ný og fersk lög sem hann hefur unnið með röppurunum Króla og Arnari Úlfi svo eitthvað sé nefnt. 

Aðdáendur Daða geta svo farið að bíða spenntir eftir annarri þáttaröð af Rabbabara þar sem Atli Már Steinarsson fær að skyggnast betur inn í líf heitustu tónlistarmanna landsins. Daði verður meðal gesta í þáttunum en þáttaröðin hefur göngu sína síðar í sumar. 

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Vígir nýtt hljóðfæri á hátíð Verksmiðjunnar