Rafmagnstruflanir á Vestfjörðum

11.01.2020 - 23:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rafmagnstruflanir hafa verið á Vestfjörðum í kvöld og er keyrt á varaafli og smærri virkjunum í kerfinu jafnt á sunnanverðum Vestfjörðum sem norðanverðum. Unnið er að leit, greiningu og viðgerðum.

Rafmagn fór í tvígang af Tálknafjarðarlínu í kvöld, fyrst laust fyrir hálfníu og svo aftur rúmlega hálftíu. Bjarni Thoroddsen svæðisstjóri á svæði 2 hjá Orkubúi Vestfjarða segir vísbendingar til staðar um hvar bilunina sé að finna og um hálftólf í kvöld voru viðgerðarmenn að leggja af stað til að kanna málið, í fylgd björgunarsveitarfólks. Aðstæður eru þokkalegar til slíkra verka, segir Bjarni, veður með skárra móti og skyggni ágætt, þótt myrkur sé.

Rafmagn fór svo af Vesturlínu, frá Mjólká til norðanverðra Vestfjarða, klukkan 22.18.  Birgir Örn Birgisson, svæðisstjóri Orkubúsins á svæði 1, segir að líkast til hafi orðið samsláttur á línunni. Grunur leiki á að ísingu sé um að kenna, líkast til í eða nærri spennuvirki við Búðardal, en unnið að því að greina það nánar.

Þrátt fyrir að báðar línur frá Mjólkárvirkjun séu úti eiga allir notendur á þjónustusvæði Orkubúsins að vera með rafmagn. Á suðurfjörðunum gekk það svolítið brösuglega til að byrja með að koma varaaflinu á, segir Bjarni, en hafðist þó allt að lokum. Norðanmegin gekk það greiðlegar; Birgir Örn segir að einungis 52 sekúndur hafi liðið frá því að Vesturlínu leysti út þar til varafl var komið á alstaðar á svæði 1.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi