Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rafmagnslaust í Púertó Ríkó eftir jarðskjálfta

07.01.2020 - 13:38
Mynd: EPA-EFE / EFE
Rafmagnslaust er í Púertó Ríkó eftir að jarðskjálfti af stærðinni sex komma fjórir reið þar yfir síðla nætur. Símsamband rofnaði einnig að miklu leyti. Gripið hefur verið til öryggisráðstafana af þeim sökum.

Skólar eru lokaðir í dag vegna rafmagnsleysisins. Opinberir starfsmenn þurfa ekki að mæta til vinnu að þeim frátöldum sem sinna neyðaraðstoð. Að minnsta kosti átta slösuðust. Líklegt er talið að þeir séu fleiri, en lítið er um upplýsingar vegna símsambandsleysisins. Neyðarástand er í gildi.

Myndir frá bænum Guayanilla sýna að miklar skemmdir hafa orðið í skjálftanum. Þar búa um tuttugu þúsund manns. Meðal annars hrundi kirkja bæjarins. Einnig skemmdust hús og mannvirki í Guanica í nágrenninu.

Upptök skjálftans voru á hafi úti, um tæplega fjórtán kílómetra sunnan við borgina Ponce. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út eftir skjálftann. Hún var síðar afturkölluð. Margir eftirskjálftar hafa fylgt þeim stóra, nokkrir yfir fimm að stærð.

Jörð hefur skolfið í Púertó Ríkó frá 28. desember. Í gær reið yfir skjálfti af stærðinni fimm komma átta. Þá skemmdust undirstöður húsa og rafmagnstruflanir urðu. Engan sakaði.

Einn öflugasti skjálftinn sem riðið hefur yfir Púertó Ríkó varð í október 1918. Hann var 7,3 að stærð. Þá fór flóðbylgja yfir landið og varð 116 manns að bana.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV