Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rafmagnsbilun á Suðurlandi: Unnið að viðgerð

15.02.2020 - 13:56
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Guðmundur Bergkvist
Bilanir eru í flutningslínum Landsnets að Hvolsvelli og Hellu, samkvæmt upplýsingum frá RARIK. Notendur frá Þjórsá að Álftaveri eru beðnir um að spara rafmagn eins og kostur er meðan á viðgerð standur og verða notendur látnir vita þegar viðgerð lýkur.

Rafmagnsbilun er einnig að Seljavöllum, Lambafelli og Rauðafelli og frá Hvammi Eyjafjöllum að Nýja Bæ, Stóru Mörk og Rauðuskriðum. Þá er bilun í rafmagni frá Brekkum að Neðri Dal í Mýrdal og staurar brotnir í línunni að Flagbjarnarholti.

Samkvæmt upplýsingum frá Rarik er unnið að viðgerð en ekki hægt að segja til um hvenær rafmagn kemst á. 

Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er enn bilun á Helllulínu 1 og takmarkaðir afhendingarmöguleikar raforku á austanverðu Suðurlandi og í Vestmannaeyjum.

Þá var rafmagnsbilun hjá Orkubúi Vestfjarða sem hafði þau áhrif að útsending Digital Íslands og Rásar 1 og Rásar 2 náðist ekki frá Urðarhjalli á Patreksfirði. Búið er að gera við Rauðasandslínu en Rás 2 kom ekki sjálfkrafa inn og þarf að skoða það á staðnum, segir í tilkynningu frá Vodafone.