Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rafmagn fyrir 1500 heimili

28.08.2013 - 22:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Vindmyllurnar tvær, sem Landsvirkjun setti upp í desemer síðastliðnum, geta árlega séð 1500 heimilum fyrir rafmagni til daglegra nota. Yfir 80% landsmanna eru fylgjandi því að reistar verði vindmyllur á Íslandi.

Tvær rannsóknarvindmyllur Landsvirkjunar voru reistar í desember síðastliðnum við Búrfell. Myllurnar voru gagnsettar í febrúar og hefur samanlögð raforkuvinnsla þeirra frá uppsetningu verið 3.150 MWst. Með þessari orku mætti sjá 1500 heimilum fyrir rafmagni til daglegra nota í eitt ár. 

Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar. 

„Við höfum sem sagt vatnsaflið sem er okkar fyrsti kostur, sem er stýranleg og örugg orka. Jarðvarminn er mjög örugg orka líka sem býður upp á fjölnýtingu. Þriðji kosturinn er vindur, sem hefur á síðustu árum verið að bæði lækka mikið í verði og verða öruggari, rekstraröryggið að aukast. Við teljum sérstaklega áhugavert að samnýta vindorku með okkar vatnsorku og búa þannig til mikið afhendingaröryggi.“

Viðhorfskönnun Capacent Gallup sýnir að  81,1 prósent landsmanna eru hlynnt því að reistar verði vindmyllur á Íslandi og vindur þannig nýttur sem orkugjafi. 6,8 prósent eru því andvíg og 12,1 prósent tóku ekki afstöðu. 

Hörður segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um byggingu fleiri vindmylla.

„En við vorum að ákveða í dag að fara í samstarf við tvær íslenskar verkfræðistofur. Að þær byggi upp þekkingu og aðstoði okkur við að gera umhverfismat og frumhönnun á stærri vindorkugarð, á svæðinu þar sem við erum með tvær vindmyllur í dag, sem er rétt ofan við Búrfell.“

Þá er stefnt að því að rannsaka nánar hvort  Þjórsár-Tungnaársvæðið sé raunhæfur og hagkvæmur virkjunarstaður fyrir vindorku til framtíðar.