Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Rafbílavæðing góð leið til að minnka losun

14.02.2017 - 11:41
Við skuldum komandi kynslóðum það að tekið verði á loftlagsmálum segir nýr umhverfisráðherra, Björt Ólafsdóttir. Ein leiðin sé til dæmis að greiða fyrir rafbílavæðingu landsins. Ný skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um loftlagsmál sýnir að Íslendingar muni ekki uppfylla skuldbindingar sínar í loftlagsmálum nema með verulegu átaki.

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, fór yfir efni skýrslunnar í Kastljósi. Hún sagði meðal annars að fram til ársins 2030 muni Íslendingar auka losun gróðurhúsalofttegunda miðað við bæði árin 1990 og 2014. Þar munar mest um stóriðjuna. Þó séu ýmiss tækifæri til að draga úr losun í ýmsum geirum, t.d. í samgöngum. Sparneytnari bílar geti minnkað losun og þá sé rafbílavæðing frekar ódýr leið sem skili miklum ávinningi.

Björt segir að á næstu vikum muni hún leggja fram skýrslu um loftlagsmál á Alþingi, en þar verður meðal annars greint frá því til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa. Öll ráðuneyti verði að taka þátt í þeim aðgerðum. Hún segir stjórnarsáttmálann sýna að þau taki þessi mál alvarlega og að forsætisráðherra leggi mikla áherslu á loftlagsmálin. Iðnaðarráðherra hafi þegar lagt fram í ríkisstjórn áætlun um orkuskipti í samgöngum og hún á von á því að málið verði rætt á þingi innan skamms.

baldvinb's picture
Baldvin Þór Bergsson
dagskrárstjóri