Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rafbílar helmingur bílaflotans árið 2030

16.04.2019 - 15:43
Rafbílar verða um helmingur allra bíla hér á landi árið 2030 ef spá Orkuveitu Reykjavíkur gengur eftir. Þá verða þeir orðnir um 100.000 talsins. Á heimsvísu eru rafbílarnir flestir í Noregi, sé miðað við höfðatölu en næst flestir hér á landi.

Eitt af markmiðum ríkisins í baráttunni við loftslagsbreytingar er að fjölga vistvænum bílum. Á dögunum gerðu Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur og Veitur samkomulag um að fjölga hleðslustöðvum verulega næstu þrjú ár. Tilgangurinn er meðal annars að koma til móts við fólk sem býr í fjölbýlishúsum. Til dæmis verða settar upp hleðslustöðvar við grunnskóla þar sem rafbílaeigendur í nágrenninu geta hlaðið bíla sína yfir nóttina.

„Ég kalla þetta stundum landlausa, það er fólk sem ekki á bílastæði heima fyrir, getur ekki stungið í samband í vegg í húsi og það eru ansi margir sem eru þannig. Allir sem búa í fjölbýlishúsum, megnið af 101 svo dæmi sé tekið, þannig að það er mjög mikilvægt að gera þeim kleift að hlaða án þess að flækja lífið of mikið,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.

Húsfélög geta sótt um styrki 

Koma á upp hleðslum fyrir rafbíla við 30 starfsstöðvar Reykjavíkurborgar. Settar verða upp 20 hleðslur á ári næstu þrjú árin. Stofnaður verður sjóður sem úthlutað verður úr til húsfélaga fjölbýlishúsa þar sem settur hefur verið upp hleðslubúnaður. Stefnt er að því að Orkuveita Reykjavíkur og borgin leggi árlega 20 milljónir, hvor, í sjóðinn næstu þrjú ár.

Spá því að rafbílar verði um 100.000 árið 2030

Í dag eru um 10.000 rafbílar hér á landi en stefnt er að því að fjölga þeim til muna á næsta áratug. „Við gerum ráð fyrir því að árið 2030 verði þeir orðnir allt að hundrað þúsund og jafnvel fleiri ef þróunin heldur áfram eins og hún er núna í dag,“ segir Bjarni. Til þess að svo verði þurfa bílarnir að komast nógu langt á einni hleðslu og verðið á bílunum þarf sömuleiðis að vera gott, að mati Bjarna.

Gott niðurgreiðslukerfi fyrir rafbílaeigendur í Noregi

Í Noregi eru flestir rafbílar á hvern íbúa í heiminum og þar eru rafbílar um helmingur nýskráðra bíla. Erik Lorentzen, sérfræðingur hjá Félagi rafbílaeigenda í Noregi, segir að niðurgreiðslukerfi fyrir rafbílaeigendur þar í landi sé mjög gott og því sé viðráðanlegra að fjárfesta í rafbíl. „Ef þú vilt kaupa nýjan rafbíl er verðið sambærilegt við verðið á bensín- eða dísilbílum. Ökumenn rafbíla sleppa líka við vegatolla, fá ókeypis í bílastæði og annað slíkt,“ segir Erik.