Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ræsi á Kísilvegi dauðagildra fyrir sauðfé

01.08.2019 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Bændur i Þingeyjarsveit segja að nýlegt ræsi undir veginn um Hólasand sé dauðagildra fyrir sauðfé. Ræsið mjókki í annan endann og kindur sem leiti þar skjóls komist ekki aftur út og drepist úr hungri.

Nýlega fundust nokkrar kindur dauðar í ræsinu, þrjár ær og eitt lamb. Ræsið er á þeim kafla Kísilvegarins sem var endurbyggður í fyrrasumar.

Víðari ræsi sett utan um þau gömlu

„Það voru þarna gömul ræsi undir veginn. Vegurinn var svo breikkaður og ræsin lengd og þau eru aðeins víðari heldur en hin,“ segir Sæþór Gunnsteinsson, bóndi í Presthvammi. „Féð skríður þarna inn, undan flugu og í hitum, og kemst þá að þrengingunni og ekki lengra. Þar drepst það.“

Kindurnar komist ekki til baka og drepist

Sæþór segir að það hafi verið grindur fyrir gömlu ræsunum til að varna því að kindur kæmust þar inn. En eftir vegagerðina í fyrra hafi ekkert verið sett þarna fyrir. Þetta sé því hrein og klár dauðagildra. „Já, já, alveg klárlega. Því þær komast ekki til baka og ekki í gegn, þannig að þær bara drepast þarna úr hungri.“

„Eiga að bæta tjón sem verður af þeirra mistökum“

Og hann vill að þarna verði gerðar úrbætur og Vegagerðin bæti bændum fjártjónið. „Við viljum bara að þeir geri þessi ræsi þannig að þarna komist ekki fé inn. Þeir hafa lögsögu yfir þessum vegi og eiga bara að ganga þannig frá honum að þetta gerist ekki.. Og auðvitað eiga þeir að bæta það tjón sem verður af þeirra mistökum. Það er bara deginum ljósara,“ segir Sæþór. 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV