Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Rændi og píndi í þágu kvikmyndaiðnaðarins

Mynd með færslu
 Mynd:

Rændi og píndi í þágu kvikmyndaiðnaðarins

23.01.2014 - 18:04
Kim Jong Il, fyrrum leiðtogi Norður-Kóreu, var mikill kvikmyndaáhugamaður. Árið 1978 leist honum illa á kvikmyndalífið í landinu og fór því að stunda mannrán á suðurkóresku kvikmyndagerðarfólki til að pína það til að gera fyrir sig bíómyndir.

Rætt er um málið í nýjasta þætti Lemúrsins á Rás 1.

 

Maður er nefndur Shin Sang-ok. Hann hefur stundum verið kallaður Orson Welles Suður-Kóreu en hann gerði um 60 myndir á tuttugu árum. Hann nútímavæddi kvikmyndaiðnaðinn og gerði greinina mjög blómlega. Eiginkona hans var leikkonan Choi Eun-hee.

Árið 1978 voru Shin og eiginkonan Choi fráskilin. Einn góðan veðurdag ferðaðist hún til Hong Kong. Hún hafði fengið boð um að fara í viðtal vegna hugsanlegs hlutverks í mynd. En hún kom ekki til baka. Virtist hafa horfið. Shin ákvað því að ferðast sjálfur til Hong Kong til að leita hennar, rannsaka málið. Þó þó væru ekki lengur hjón gat hann ekki horft upp á að fyrrverandi eiginkona sín væri horfin.

En hann fann hvorki tangur né tetur af henni.

Og einu sinni að kvöldi til þegar hann gekk um götur Hong Kong réðst einhver á hann skyndilega og rakk klút upp að andliti hans. Svæfði hann með klóróformi.

Já. Kim Jong-Il hafði sent leyniþjónustumenn til Hong Kong, lokkað parið þangað og handsamað bæði. Þau voru umsvifalaust flutt til Norður-Kóreu með herskipum en voru aðskilin. Þegar Choi steig á land tók Kim Jong-Il á móti henni. „Takk fyrir að koma frú Choi,“ sagði hann. Eins og hún væri að koma af skemmtiferðaskipi og að hann væri elskhugi hennar.

Shin vaknaði í notalegu húsi úti á landi. En hann hafði ekki ferðafrelsi. Einn góðan veðurdag reyndi hann svo að sleppa. Hann fékk far niður á lestarstöð og faldi sig í lestinni. En hann náðist daginn eftir og var þá sendur í skelfilegt fangelsi.

Á endanum var Shin neyddur til að gera kvikmyndina Pulgasari að ósk Kim Jong Il. Pulgasari er einskonar kommúnísk útgáfa af Godzilla. 

 

Hlustið á Lemúrinn til að heyra allt um þetta stórfurðulega mál. Fylgist með Facebook-síðu Lemúrsins og vefnum Lemúrinn.is.