Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ræddu lokun Íslands vegna Wuhan-veirunnar

29.01.2020 - 18:11
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. - Mynd:  / 
Formlega var rætt um þann möguleika á stöðufundi í morgun hvort það ætti að loka landinu til að koma í veg fyrir að Wuhan-kórónaveiran berist hingað til lands. Ákveðið var að ráðast ekki í svo viðamikla forvarnaraðgerð, enda hefði þurft að loka landinu í sex til tólf mánuði. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að andlitsgrímur geri ekki mikið gagn þar sem helsta smitleiðin sé með snertingu.

Wuhan-kórónaveiran á uppruna sinn í borginni Wuhan í Kína. Nærri 6.000 tilfelli hafa verið staðfest í landinu. Alls hafa 132 látist af völdum veirunnar sem hefur verið greind í nokkrum löndum. Í dag var greint frá því að fyrsta tilfellið hafi verið staðfest í Finnlandi. 

Fara daglega yfir málin

Hér á landi eru heilbrigðisyfirvöld í viðbragðsstöðu. Sóttvarnalæknir segir að vel sé fylgst með þróun mála úti í heimi og skerpt á viðbragðsáætlunum. Þá eru haldnir fundir daglega til að fara yfir stöðuna. Enginn grunur er um að smit hafi borist hingað til lands. 

Alltaf þegar alvarlegur faraldur sem þessi kemur upp er sá möguleiki ræddur að loka landinu til að koma í veg fyrir að veiran berist hingað til lands, segir Þórólfur. Þessi möguleiki hefur verið ræddur af og til síðan Wuhan-kórónaveiran kom upp. „Það var rætt formlega í morgun með þessum aðilum sem voru á þessum fundi og það var samdóma álit að það væri ekki gerlegt að gera það. Það þyrfti að vera marga mánuði, kannski í sex til tólf mánuði og ég held að það sjái það allir að það myndi aldrei ganga upp fyrir íslenskt samfélag.“

Andlitsgrímur hafa selst í kassavís hér á landi vegna Wuhan-kórónaveirunnar. Þórólfur segir að þær gagnist lítið til varnar smiti. „Þær hafa ekki mikið að segja því aðal smitleiðin er snertismit en vissulega getur smit borist ef einhver hnerrar eða hóstar mjög nálægt, innan tveggja metra eða svo. Það er fyrst og fremst handþvottur, notkun á spritti, hugsanlega notkun á hönskum sem vernda, grímur kannski í einstaka tilfellum en það er ekki stóri þátturinn í þessu.“

Vísbendingar um að veiran geti orðið skæð

Ef veiran berst hingað til lands, þarf fólk að óttast? „Já, ég held að svarið sé já og þess vegna höfum við gripið til svona víðtækra aðgerða og allar þjóðir hafa gert það.“

Þær upplýsingar sem berist frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni og frá Sóttvarnastofnun Evrópu bendi til þess að þessi veira geti orðið ansi skæð. „Og vel að merkja, við erum alltaf að fá nýjar fréttir á hverjum degi og það kann vel að vera að upplýsingar næstu daga og næstu vikurnar bendi til þess að hún sé ekki alveg eins skæð og við höldum, það yrði þá bara ánægjulegt,  en við göngum út frá því í okkar viðbrögðum að hún geti orðið útbreidd ef hún kemur og hún gæti orðið skæð.“