Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ræddi lengi við Elísabetu – Karl rifjaði upp veiðiferð

03.12.2019 - 21:13
Mynd: Skjáskot / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, ræddi drykklanga stund við Elísabetu Bretadrottningu þegar hún kom til Buckingham-hallar í kvöld í tilefni af leiðtogafundi Nato. Þá virtist Karl Bretarprins rifja upp veiðiferð til Íslands þegar hann bauð Katrínu velkomna.

Þetta má sjá á myndskeiði frá móttökunni sem hægt er að horfa á í spilaranum hér að ofan.  Karl kom nokkrum sinnum til Íslands til að renna fyrir laxi. Hann var meðal annars staddur hér á landi þegar frændi hans, Mountbatten lávarður, var myrtur af liðsmönnum IRA árið 1979. 

Í fréttum klukkan tíu í kvöld verður síðan myndskeið af því þar sem Katrín ræðir við drottninguna ásamt þeim Melaniu Trump, forsetafrú Bandaríkjanna,  Angelu Merkel, kanslara Þýskalands,  Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs,  Sophie Wilmes, forsætisráðherra Belgíu og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.

Þegar þjóðarleiðtogarnir voru myndaðir var Katrín síðan með Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands sér á hægri hönd og Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, á vinstri hönd. Skammt frá sat síðan Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. 

Orban er einn umdeildasti leiðtogi Evrópu en hann hefur verið gagnrýndur  fyrir andúð sína á innflytjendum. Í aðdraganda kosninganna til Evrópuþingsins fyrr á þessu ári hvatti hann landa sína til verja kristnar þjóðir gegn straumi innflytjenda sem hann sagði orsök þess sem hann kallaði hryðjuverkaveiruna.

Katrín og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sækja fundinn fyrir hönd Íslands. Hann hófst í dag og lýkur á morgun, miðvikudag.  Leiðtogafundurinn er haldinn í tilefni af 70 ár afmælisári Atlantshafsbandalagsins. Meginefni fundarins eru breytt öryggisumhverfi, horfur í afvopnunarmálum, aðgerðir gegn hryðjuverkum, fjárframlög til bandalagsins og samskiptin við Rússland.

Í dag flutti Katrín erindi um velsældarhagkerfi á vegum bresku hugveitunnar Chatham House. Erindið hefur vakið nokkra athygli, meðal annars hjá BBC. Þar greindi hún meðal annars frá þróun íslenskra stjórnvalda á hagsældarmælikvörðum „þar sem leitast er við að nýta aðra mælikvarða en hagvöxt og verga þjóðarframleiðslu til að leggja mat á árangur og velgengni.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV