Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ræða vantrauststillögu á forsætisráðherra

20.03.2016 - 19:30
Mynd með færslu
Forsætisráðherra í þingsal í dag, þar sem hann mælti fyrir frumvarpi um menningarminjar. Mynd: RÚV
Vantrauststillaga á forsætisráðherra hefur verið rædd innan allra stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að ráðherrann sé í erfiðri stöðu vegna umræðu um aflandsfélag í eigu eiginkonu hans og vill að hann skýri málið sem fyrst fyrir þjóðinni.

Eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra upplýsti skyndilega í vikunni að hún ætti aflandsfélag, sem síðar kom í ljós að lýsti kröfum fyrir rúman hálfan milljarð króna í slitabú föllnu bankanna. Forsætisráðherra hefur enn ekki orðið við ítrekuðum beiðnum um viðtal og ekki heldur svarað skriflegum fyrirspurnum fréttastofu vegna málsins. Málið hefur valdið titringi innan Sjálfstæðisflokksins og þingmenn hans eru tregir til að tjá sig um málið opinberlega.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður flokksins, sagði hins vegar í fréttum RÚV í dag að hann vilji að forsætisráðherra stígi fram sem fyrst og skýri málið betur fyrir þjóðinni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur vantrauststillaga komið til tals innan allra stjórnarandstöðuflokkanna á þingi. Flokkarnir hafa ekki rætt saman formlega um sameiginlega vantrauststillögu en þeir vilja krefja forsætisráðherra svara við mörgum ósvöruðum spurningum um málið á þingi eftir páskafrí.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir óhugsandi að forsætisráðherra sitji áfram í ljósi upplýsinga sem fram hafa komið.  Hann furðar sig á því að stjórnarþingmenn geri lítið úr málinu sem snúist ekki um eiginkonu forsætisráðherra heldur um ráðherrann sjálfan og hagsmuni hans, og sé risavaxið.