Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ræða framgöngu lögreglu

21.03.2019 - 09:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðgerðir lögreglu gegn mótmælendum á Austurvelli 11. mars eru til umræðu á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Aðgerðirnar hafa vakið mikla umræðu og athygli en til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda en lögreglan hefur sagt að mótmælendur hafi viljað tjalda í óleyfi á Austurvelli og að þeir hafi ætlað að setja upp bálköst.

Mótmælendurnir sögðu hins vegar að þeir hafi ætlað að skrifa mótmælaspjöld og að þeir hafi haft leyfi frá Reykjavíkurborg til að slá upp tjaldi. Tveir voru handteknir í mótmælunum. 

Á fund allsherjar- og menntamálanefndar hafa verið boðaðir nokkrir gestir, meðal annars forsvarsmenn Andrýmis, Rauða krossins, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóri og nefnd um eftirlit með störfum lögreglu. Fundurinn er opinn fjölmiðlum en honum er ekki streymt beint. RÚV flytur nánari fréttir af fundinum þegar fram vindur.

Aðgerðir lögreglu hafa einnig vakið upp mikla umræðu á Alþingi en Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar er einn þeirra sem hefur furðað sig á framgöngu lögreglunnar.