Ráðuneyti Jóhönnu lætur af störfum

23.05.2013 - 11:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkisráðsfundur hófst klukkan ellefu á Bessastöðum. Á honum verða staðfest lög og stjórnvaldsaðgerðir og ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur lætur af störfum.

Að fundi loknum býður Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ráðherrum fráfarandi ríkisstjórnar til hádegisverðar.

Annar ríkisráðsfundur verður haldinn á Bessastöðum klukkan þrjú í dag. Þar skipar forsetinn nýtt ráðuneyti, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Ráðherrar fráfarandi stjórnar mættu til Bessastaða í úrhellisrigningu í morgun. Fráfarandi ráðherrar óska nýrri stjórn velfarnaðar í starfi, en undrast óljósa stefnuyfirlýsingu.

Jóhanna Sigurðardóttir, fráfarandi forsætisráðherra, kveðst hissa á öllum þessum nefndum sem nýja stjórnin ætli að skipa, tæplega 20 nefndi. Þeir hafi sagt engar nefndir heldur aðgerðir strax, þannig að hún sé hissa á því. Hún óski hinsvegar nýrri ríkisstjórn góðs gengis og vona að henni takist að framkvæma öll þau loforð sem hún hafi gefið þjóðinni. Jóhanna segir það hafa komið sér á óvart hversu stefnuyfirlýsing nýrrar stjórnar sé loðin, óljós og ómarkviss.

Jóhanna Sigurðardóttir lætur nú af störfum forsætisráðherra og lýkur þar með löngum pólitískum ferli. Hvað er henni efst í huga?

Jóhanna kveðst sátt og ánægð hversu vel hafi tekist til hjá ríkisstjórn hennar og nýja stjórnin taki við mjög góðu búi.

Steingrímur J. Sigfússon segir þetta ágætis afrakstur eftir einn sunnudag. Hann hefði ímyndað sér að vera 4 til 6 tíma að setja þetta saman. Hann segir margt vanta í stefnuyfirlýsingu nýrrar stjórnar, hann sé gáttaður á að ekki sé minnst á ríkisfjármál. Hann sé dapur yfir því að gengisfella eigi umhverfismálin og fara með okkur 30 ár aftur í tímann í þeim efnum. Einnig sé dapurt að sjá okkur fara tilbaka í jafnréttismálum, hvað varði kynjahlutföll í ríkisstjórn. Það sé ekki nútímalegur blær á þessum tveimur hlutum að minnsta kosti.

Katrín Júlíusdóttir segir ýmislegt lofa góðu og hljóma nokkuð vel, en það komi sér á óvart hversu mikið sé óklárt, hversu mikið eigi að fara í nefndir og starfshópa, hversu margar úttektir eigi eftir að gera. Það komi sér á óvart vegna þess hve kokhraustir menn hafi verið í kosningabaráttunni og klárir á málunum þá. Þannig að hún hefði haldið að menn væru tilbúnari en þetta, en hún voni það besta og hún muni styðja öll góð mál frá þessu ágæta fólki. 

Ögmundur Jónasson segir að sér lítist ílla á það að gera eigu umhverfisráðuneytið að skúffu í öðru ráðuneyti og hann haldi að þeim sem fjölmennt hafi undir grænum fánum 1. maí sé ekkert sérstaklega skemmt við það og ekki þeim hinum sem sé annt um umhverfisvernd. Síðan veki það athygli sína að stjórnarsáttmálinn sé illa útfærður eftir allar hinar sveru yfirlýsingar sem gafnar hafi verið í aðdraganda kosninganna.

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, fagnar því að ný ríkisstjórn ætli í utanríkismálum að leggja áherslu á norðurslóðir og Asíugátt. Hins vegar sé vík milli vina í Evrópumálum. Þar ætlar nýja stjórnin að gera hlé á viðræðum við Evrópusambandið og láta gera úttekt á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins.

„Ég er nýbúinn að leggja fram vandaða úttekt á því hver staða þess máls er og hverju hefur verið náð fram og hvernig þetta lítur allt saman út þannig að það má segja að ný úttekt - það verði ekki mikið verk að ljúka henni". 

Katrín Jakobsdóttir segir: „Það sem slær mig er að það er mjög margt þarna almennt orðað og margar útfærslur sem á eftir að móta, til dæmis í stóra málinu, sem var aðalmálið í kosningabáttunni, sem voru skuldir heimilanna. Þar liggur ekki fyrir tímasett áætlun þannig að það er greinilegt að það er mjög mikil vinna eftir hjá nýrri ríkisstjórn við að útfæra þetta".  

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi