Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ráðuneyti heimilar hvalbjórinn

25.01.2014 - 13:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið hefur ákveðið að heimila sölu hvalbjórs þótt ljóst sé að í hann sé notað hvalmjöl sem ekki er heimilt að framleiða til manneldis.

Hvalbjórinn er frá brugghúsinu Steðja. Hann er sérstaklega bruggaður fyrir þorrann og má selja hann í einn mánuð. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands bannaði á dögunum framleiðslu og sölu bjórsins þar sem Hvalur hf. hefur ekki leyfi til að framleiða hvalmjöl til manneldis. Hvalur hf. lét hinsvegar brugghúsið fá hvalmjöl sem unnið er úr þeim afgöngum sem falla til við verkun hvals.

Eigandi Steðja kærði ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins og ákvað ráðuneytið að fresta réttaráhrifum sölubannsins á meðan málið væri í skoðun í ráðuneytinu. Bjórinn er því til sölu í vínbúðum ÁTVR.

Helgi Helgason, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Vesturlands, sagði í samtali við fréttastofu að þetta kæmi sér mjög á óvart. Óvíst er hvenær ákvörðun ráðuneytisins liggur fyrir, en ljóst þykir að það gagnist lítið að banna sölu bjórsins eftir að landsmenn hafa skolað honum niður með þorramatnum og sölutímabilinu er liðið.

Í rökstuðningi ráðuneytisins til Steðja segir að mest af mjölinu sé síað úr vökvanum og eftir verði aðeins bragð í litlum mæli.

Dagbjartur Arilíusson er framkvæmdastjóri Steðja. Hann segir að heilbrigðiseftirlitið hafi gert lögfræðileg mistök við afgreiðslu málsins og vísað í lagagrein sem hafi verið felld úr lögunum. Hann er hinn ánægðasti og segir bjórinn meinlausan. Lítið sé notað af mjölinu og einungis til að fá vott af bragði í bjórinn. „Við erum með efnagreiningu á bjórnum og hann kemur mjög vel út. Við teljum þetta vera mjög örugga vöru eins og allar bjórtegundirnar frá okkur.“