Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ráðist inn í Ásmundarsafn með gleði að vopni

Mynd: RÚV / RÚV

Ráðist inn í Ásmundarsafn með gleði að vopni

29.04.2018 - 08:00

Höfundar

Myndlistarkonan Hrafnhildur Arnardóttir - Shoplifter - pakkar inn, lýsir upp og laumar sér jafnvel inn í skúlptúra Ásmundar Sveinssonar í lúmskri innrás, sem var opnuð í Ásmundarsafni á dögunum.

Þetta er önnur sýningin af fjórum í röð sem gengur undir yfirskriftinni Innrás, þar sem Listasafn Reykjavíkur býður völdum listamönnum að setja upp verk sín í samtali við verk Ásmundar Sveinssonar.

Vildi máta sig við Ásmund

Hrafnhildur Arnardóttir – eða Shoplifter – hefur vakið athygli fyrir litríka og gríðarstóra hárskúlptúra. Á sýningunni í Ásmundarsafni kveður hins vegar við annan tón.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hrafnhildur Arnadóttir – Shoplifter.

„Þetta hús er rosalega fallegt og helgidómur Ásmundar Sveinssonar og maður tiplar svolítið inn á tánum, Mér fannst engin ástæða að koma hingað inn og planta mínu hér, það er ekkert samtal við hans verk. Svo ég ákvað að bergmála verkin hans og gera það sem ég kalla hermikrákur. Ég kem inn eins og lærisveinn Ásmundar og máta mig við hann án þess að ég sé bara að herma heldur er þetta líka efnisnotkun sem ég er að nota sem ég hef nú þegar verið að leika mér að." 

Verk sem villa á sér heimildir

Hrafnhildur vann verk úr efnum sem hún fann á nytjamörkuðum, kertastjökum og þvíumlíku, sem minnti hana á efni og form Ásmundar og stillir þeim upp við verk hans eða laumar þeim jafnvel inn í þau.

„Ég leitaði eftir því sem mér fannst tengja við verk Ásmundar og smelli því eins og hermikrákum og boðflennum inn í hans verk. Þau villa á sér heimildir. Þú þarft svolítið að fatta hvað er mitt og hvað er hans." 

Sum verk Ásmundar hjúpar Hrafnhildur með bræddu einangrunarefni, sem minnir á ómótaða steypu. 

„Í staðinn fyrir að afhjúpa verkið, eins og gert er við útiverk — afhjúpun á myndlistarverki sem er svolítið viðhöfn — í staðinn fyrir það hyl ég þær. Þetta eru svona dulur og maður spyr: Hvað er undir dulunni?" 

Klæðir stytturnar í litríkan hjúp

Þá lýsir Hrafnhildur upp skúlptúra Ásmundar í skærum litum í verki sem hún kallar Dýrðarljóma.

„Með því að lýsa það verkin upp breyti ég skynjuninni á þau. Hér er allt grátt og svarthvítt og svolítið „matcho". Mér finnst gaman að taka þessar stúlkur, þessar fínu frúr, og lýsa þær upp. Ljósið er svolítið að klæða þær í litrík föt eða litríkan hjúp. Mér finnst gaman að fá popp og dægurmenningu hingað inn. Að taka sig ekki hátíðlega, þótt maður taki sig alvarlega, og hafa svolítið gaman af því að tala við hann. Gera það með rosa gleði."

Fjallað var um sýningu Hrafnhildar í Ásmundarsafni í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.