Ráðist á sjúkrahús í Sýrlandi

20.02.2018 - 19:01
epa06544187 Injured children are treated at a hospital in rebel-held Douma, Eastern Ghouta, Syria, 19 February 2018. At least 85 people were killed in heavy bombing by forces allegedly loyal to the Syrian government.  EPA-EFE/MOHAMMED BADRA
Börn sem komið var með á sjúkrahús í Austur-Ghouta. Tugir barna hafa látist í loftárásum þar síðustu daga.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Sex sjúkrahús í Austur-Ghouta nálægt Damaskus í Sýrlandi hafa orðið fyrir sprengjum í ítrekuðum loftárásum sýrlenska hersins undanfarna daga. Austur Ghouta er eitt af fáum svæðum í landinu þar sem uppreisnarmenn hafa enn á valdi sínu. Talið er að á þriðja hundað almennir borgarar hafi fallið síðustu þrjá daga, þar af tugir barna. Alþjóðleg hjálparsamtök hafa fordæmt framferði sýrlenska hersins og mannréttindasamtök segja að rússneskar flugvélar hafi tekið þátt i árásunum.

Loftárásirnar síðustu daga í Austur-Ghouta eru af mörgum taldar liður í hertum aðgerðum stjórnarhersins gagnvart uppreisnarmönnum þar; fastlega er búist við að landherinn geri þar innrás á næstu dögum. Svæðið hefur verið á valdi uppreisnarmanna síðan í upphafi borgarastríðsins í Sýrlandi og um 400.000 almennir borgarar þar hafa verið innilokaðir; nýlega var hjálparsamtökum hleypt þangað í fyrsta sinn í langan tíma. 

Hundruð fallin og særð 

Mannréttindasamtök sem fylgjast með átökunum í Sýrlandi segja að 225 almennir borgarar hafa fallið í Austur Ghouta síðan þessi lota árása hófst á sunnudaginn; að minnsta kosti 81 í dag. Hundruð eru særð. Loftárásirnar hafa ekki aðeins beinst að hernaðarlegum skotmörkum, heldur einnig að sjúkrahúsum og matargeymslum á svæðinu. Talmenn mannréttindasamtaka segja að rússneskar flugvélar hafi tekið þátt í þessum árásum; AFP fréttaveitan hefur eftir ljósmyndara í Austur Ghouta að hann hafi séð rússneskar orystuvélar á flugi yfir svæðinu. 

 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi