Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Radiohead verður líklega inni í Laugardalshöll

epa03415355 Singer Thom Yorke of English band Radiohead performs with his group at the Wuhlheid, in Berlin, Germany, 29 September 2012.  EPA/Britta Pedersen
 Mynd: EPA - DPA

Radiohead verður líklega inni í Laugardalshöll

29.01.2016 - 15:20

Höfundar

Tónleikar Radiohead á tónlistarhátíðinni Secret Solstice verða að öllum líkindum inni í Laugardalshöll en ekki á tónlistarsvæðinu úti. Secret Solstice er með 13 þúsund miða í sölu en Laugardalshöllin tekur 11 þúsund gesti. Ósk Gunnarsdóttir, kynningarstjóri hátíðarinnar, segir ekki búið að ákveða hvernig skipulaginu verði háttað í kringum tónleika Radiohead - öryggi gesta verði í fyrirrúmi.

Greint var frá því í gær að Radiohead myndi spila á tónlistarhátíðinni Secret Solstice - mörgum þótti það mikill happafengur enda sveitin verið í fremstu röð um árabil. Hvergi kom þó fram í neinni tilkynningu að sveitin myndi spila inni á útihátíðinni.

Um 4.000 miðar voru seldir á Secret Solstice áður en tilkynningin um Radiohead barst fjölmiðlum, að sögn Óskar Gunnarsdóttur, kynningarstjóra Secret Solstice. Fastlega má gera ráð fyrir að salan hafi tekið kipp eftir að ljóst var að breska sveitin myndi heiðra samkomuna með nærveru sinni.

Ósk segist ekki hafa áhyggjur af því að þeir sem vilji sjá Radiohead geti það ekki - nóg af öðrum tónleikum verði í boði á sama tíma og ekki sé víst að allir hafi áhuga á bresku sveitinni enda búið að bóka 93 hljómsveitir - þær geti þó orðið um 170 þegar allt kemur til alls.  

Hún segir hugsanlegt að tónleikar annarra hljómsveita verði í Laugardalshöll - skipulagið sé þó ekki meitlað í stein enda nægur tími til stefnu. Hún segir að fyrst og fremst verði horft til þess að öryggi gesta verði tryggt. 

Hátíðin gerði fimm ára samning við Reykjavíkurborg í fyrra. Þegar hún sótti um leyfi kom meðal annars fram að hún hefði áhuga á því að flytja tónleika, sem væru eftir miðnætti, inn í Laugardalshöll. Þegar væru hafnar viðræður við rekstraraðila Laugardalshallarinnar varðandi þetta.

Hátíðin sagði einnig til skoðunar að flytja hátíðina til að trufla ekki útskrift frá Háskóla Íslands - brautskráning kandítata verður 25. júní samkvæmt kennslualmannaki HÍ. Secret Solstice verður hins vegar 17. til 19. júní.