Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðherrar kallaðir fyrir þingnefndir vegna Samherja

17.11.2019 - 11:16
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Kallað hefur verið eftir því að sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra komi fyrir þingnefndir til að svara spurningum um málefni Samherja. 

„Ég hef óskað eftir því að fá sjávarútvegsráðherra á fund atvinnuveganefndar sem fyrst til að fara yfir áhrif Samherjamálsins, ekki bara á fyrirtækið sjálft sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og það umfangsmesta í Evrópu,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í atvinnuveganefnd. 

Segir hún að málið sé af slíkri stærðargráðu að það hafi áhrif á greinina í heild sinni og þess vegna sé mikilvægt að ráðherra geri þingmönnum grein fyrir því hvort og þá hvaða aðgerða hann hyggist grípa til. 

Þá hefur einnig verið kallað eftir því að utanríkisráðherra komi fyrir utanríkismálanefnd þingsins. Verður leitast við að ráðherra geri grein fyrir því hvert yfirlit íslenskra stjórnvalda er með viðskiptum íslenskra fyrirtækja í núverandi og fyrrverandi þróunarsamvinnulöndum og hvort farið verði í aðgerðir til að verja orðspor Íslands í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin. Logi Einarsson er fulltrúi Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd.
 
„Utanríkisráðherra hefur sagt að hann vilji auka hlut viðskiptalífsins í þróunaraðstoð og ef að Ísland á að vera þátttakandi í því þá þurfum við að vera mjög meðvituð um það hvaða kröfur eru gerðar til þessara fyrirtækja,“ segir Logi. 

Logi Már Einarsson hitti Guðna Th. Jóhannesson forseta á Staðastað 2. desember 2016 til að ræða möguleika í stjórnarmyndun.
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Logi Már Einarsson.