Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ráðherrar fáorðir um tengsl við aflandsfélög

30.03.2016 - 12:51
Mynd: RÚV / RÚV
Ráðherrar í ríkisstjórninni vilja lítið tjá sig um þær fréttir að nöfn þriggja annarra ráðherra, þeirra Ólafar Nordal, Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, tengist aflandsfélögum í skattaskjólum. Utanríkisráðherra segist þó telja að búið sé að skýra málið.

Fréttastofa náði tali af fimm ráðherrum fyrir ríkisstjórnarfund á tröppum Stjórnarráðsins í morgun og innti þá eftir viðbrögðum við því að nöfn þriggja ráðherra tengdust aflandsfélögum í skattaskjólum.

Fyrst kom Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra.

Hver eru viðbrögð þín við því að nöfn þriggja ráðherra tengist aflandsfélögum í skattaskjólum?

„Ekkert komment við þessu.“

Heldurðu að þetta mál veiki ríkisstjórnina?

„Mér finnst nú ríkisstjórnin standa svo sterkt. Það er sama hvenær maður hlustar á útvarp eða opnar blað, alltaf góðar tölur um hvað þessi ríkisstjórn hefur gert gott. Aldrei minni verðbólga, stöðugleiki í efnahagslífinu og á öllum sviðum. Ég held að sagan eigi eftir að túlka það þannig.“

En heldurðu að þetta mál verði rætt hér á ríkisstjórnarfundi í dag?

„Það geri ég ekki ráð fyrir.“

En í þínum þingflokki?

„Við sjáum til. Ég stjórna honum ekki lengur.“

Ætlar að heyra í fólki

Næst kom Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

„Það eru engin viðbrögð, ég ætla bara aðeins að heyra í fólki.“ 

En finnst þér þetta veikja ríkisstjórnina?

„Ég ætla ekkert að tjá mig um það á þessu stigi.“

En hvað með hagsmunaskráningu, þarf að breyta henni?

„Ég ætla ekkert að tjá mig um þetta á þessu stigi.“

Eldgömul félög

Næstur kom Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

„Mér sýnist þetta vera einhver eldgömul félög hjá flestum þessara ráðherra og það er búið að skýra allt annað held ég.“

Verður þetta rætt á ríkisstjórnarfundi í dag?

„Ekki af minni hálfu.“

„Þurfum meiri tíma“

Þá kom Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

„Ég held að við þurfum nú meiri tíma til að ræða það hér en ég held að miðað við flest það sem er að gerast í samfélaginu sést að ríkisstjórnin er býsna sterk.“

Kemur í ljós

Og loks kom Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Eygló hver eru viðbrögð þín við því að nöfn þriggja ráðherra tengist aflandsfélögum í skattaskjólum?

„Ég held að ég sé nú bara orðin of sein á fundinn í augnablikinu. “

Verður málið rætt á ríkisstjórnarfundi?

„Það kemur í ljós.“