Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að Íslendingar eigi að íhuga það að draga úr hvalveiðum vegna gagnrýninnar sem veiðarnar sæta á alþjóðavettvangi. Þetta kemur fram í viðtali við ráðherra í Skessuhorni.
Í viðtalinu segist Gunnar Bragi hafa orðið var við það að Íslendingar séu litnir hornauga vegna veiðanna. Hvalveiðarnar standi í vegi fyrir ýmsu í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna og Íslandi sé ekki boðið á ráðstefnur um málefni hafsins. Það sé því umhugsunarefni hvort Ísland ætti að koma til móts við alþjóða hvalveiðiráðið, til að mynda með því að veiða færri hvali.