Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ráðherra vill endurmeta hvalveiðistefnuna

16.08.2018 - 10:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, er ekki sannfærður um að hvalveiðar hér við land séu sjálfbærar. „Þá hefur ráðherra einnig efasemdir um að hagsmunir Íslendinga af nýtingu hvala séu eins miklir og stundum er haldið fram,“ segir i svari hans við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns Viðreisnar.

Í svarinu kemur fram að ráðherra telji rétt að staldrað verði við, hvalveiðistefna Íslendinga verði endurmetin og málið skoðað heildstætt út frá umhverfissjónarmiðum sem og út frá samfélagslegum og efnahagslegum sjónarmiðum.

Þorgerður Katrín hefur líka fengið svar frá Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við sömu spurningu. Hann sagði í svari, sem birtist í júní, að hann teldi ekki rétt að hverfa frá stefnu Íslands um hvalveiðar; þær hafi byggst á því að viðhalda rétti til að nýta hvalastofna við landið með sjálfbærum hætti eins og aðrar lifandi auðlindir hafsins. Stefnan byggist á vísindalegri ráðgjöf.