Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðherra vill bjóða út Sundabraut innan tíðar

02.07.2019 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir raunhæft að bjóða út framkvæmdir við Sundabraut á þessu kjörtímabili og að framkvæmdir geti hafist á næstu þremur til fjórum árum. Starfshópur telur jarðgöng yfir í Gufunes eina raunhæfa möguleikann í ljósi núverandi aðstæðna. Áætlaður kostnaður við jarðgöng er um 75 milljarðar. Ráðherra telur brú yfir Kleppsvík fýsilegri kost en jarðgöng þar sem hún verði þá valkostur fyrir gangandi og hjólandi fólk, almenningssamgöngur, Borg

Starfshópur um Sundabraut á vegum ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skilaði nýverið yfirgripsmikilli skýrslu til samgönguráðherra. Af fjórum kostum telur hópurinn tvo koma til greina: jarðgöng yfir í Gufunes eða lágbrú yfir hafnarsvæðið við Kleppsvík. Hvorki botngöng né hábrú eru talin fýsilegir kostir. Að mati hópsins eru jarðgöng þó eini raunhæfi möguleikinn í ljósi aðstæðna. Þau raski lítið starfsemi Sundahafnar, en þau eru metin umtalsvert dýrari en brú og laða að sér minni umferð. 

Vill frekar brú en jarðgöng

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, telur lága brú yfir Kleppsvík betri kost en jarðgöng, sem þurfi að vera ansi löng til að hallinn í þeim verði eðlilegur.  

„Lágbrúin getur hins vegar verið allt að átta metra há og þannig verið valkostur fyrir gangandi fólk, hjólandi fólk, almenningssamgöngur og auk þess sem tengingin yrði betri fyrir íbúana í Grafarvogi og umferðin þar af leiðandi meiri. Þannig að kostirnir við lágbrúna eru umtalsvert meiri þó að jarðgöngin yrðu vissulega góð líka,” segir hann. „Ég sé fyrir mér að ljúka þessari pælingu hvort valkosturinn um lágbrú, sem er mjög spennandi, hvort hann geti orðið að veruleika. Við gætum alveg farið að undirbúa það að bjóða þetta út í opnu útboði þar sem hönnunin yrði inni í þessu því við sjáum það líka að það er bæði hægt að gera brúnna ódýrari og lægri og reyndar jarðgöngin líka, einfaldari og ódýrari.”

Hópurinn metur göng á 74 milljarða og brú á 60

Kostnaður við göngin er metinn 74 milljarðar en lágbrú 60 milljarðar. Hópurinn tekur fram að þetta sé með fyrirvara þar sem forsendur séu gamlar. Ráðherra segir hægt að lækka þær tölur og það sé raunhæft að bjóða verkið út á þessu kjörtímabili. Framkvæmdir gætu þannig hafist á næstu þremur til fjórum árum.

„Við þurfum að skoða Sundabrautina sem raunverulegan valkost til að bæta inn í flóruna, líka til að bæta hér öryggisaðstæður ef þær aðstæður kæmu upp að við þyrftum að rýma borgina, þá yrði Ártúnsbrekkan ansi mikill þröskuldur.” 

Skýrslan hefur ekki verið rædd innan ríkisstjórnarinnar, en samgönguáætlun verður uppfærð í vetur og segir Sigurður Ingi mögulegt að finna Sundabraut stað þar.