Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðherra vill að flugið verði niðurgreitt

04.12.2018 - 20:11
Mynd:  / 
Samgönguráðherra vill hrinda í framkvæmd tillögum um að flugfargjöld íbúa á landsbyggðinni verði niðurgreidd um helming. Þetta er meðal tillagna starfshóps sem skilaði samgönguráðherra skýrslu í dag.

Til þess að styrkja flug sem almenningssamgöngur leggur hópurinn til að flugfarmiðar íbúa með lögheimili í tvö til þrjú hundruð kílómetra akstursfjarlægt frá höfuðborgarsvæðinu, verði niðurgreiddir um helming.

„Það hefur sýnt sig þar sem þetta hefur verið tekið upp að ávinningur af þessari leið hefur verið sá að flug hefur aukist, tekjur flugvalla og flugfélaga hefur aukist og ávinningur neytenda hefur orðið meiri,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Þá er lagt til að ISAVIA sjái um rekstur Reykjavíkurflugvallar og flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum sem eru varaflugvellir fyrir millilandaflug. Þeir verði reknir á sameiginlegum kostnaðargrunni með Keflavíkurflugvelli. 

„Við höfum farið hér úr 2 milljónum flugfarþega úr um Keflavíkurflugvell í 10 milljónir og það er eðlilegt að hinir flugvellirnir sem við notum fyrir varaflugvelli taki þátt í þeirri uppbyggingu og séu til staðar. Ég held að báðar þessar tillögur séu álitlegar og vona svo sannarlega að þær hljóti náð fyrir augum þingmanna,“ segir Sigurður Ingi. 

Formaður starfshópsins segir brýnt að auka flugöryggi með því að bæta varaflugvellina þrjá.

„Undanfarin 7-8 ár þá hafa þeir verið verulega fjársveltir og frá 2009 hefur þetta verið afar dapurt. Það sér mjög á völlunum hversu illa viðhaldinu hefur verið sinnt. Og nýframkvæmdir hafa verið nánast engar á þessu tímabili,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, formaður starfshópsins.

Flugbrautir á Egilsstöðum séu illa farnar.

„Það þarf að fara að malbila þar og bæta yfirlag varðandi bremsuskilyrði vallanna,“ segir Njáll.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV