Ráðherra þurfi að kynna sér málið betur

02.02.2015 - 19:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, telur að félagsmálaráðherra eigi eftir að kynna sér launamál í Kópavogi betur. Svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í dag hafi verið stór.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagði á Alþingi í dag að Kópavogsbær hafi farið þvert gegn úrskurði Kærunefndar jafnréttismála, með því að lækka laun karlmanns sem hafði hærri laun en kona í sama starfi. Málið sé mjög alvarlegt: „Ég tek algjörlega undir þetta. Þetta er ótækt. Þarna koma fram mjög skýr skilaboð til atvinnurekandans um að það eigi ekki að leiðrétta það með þessum hætti. Það er farið þvert gegn því. Þannig að ég tel að það sé bara mjög alvarlegt og eitthvað sem Kópavogsbær verður að fara mjög vel yfir. Ég veit að verkalýðsfélögin eru líka að skoða málið. Og þetta þurfa að vera skilaboð til allra atvinnurekenda að þegar það eru að koma leiðbeiningar um það hvernig eigi að leiðrétta mismunun með þessum hætti, að það sé farið að þeim leiðbeiningum".

Ármann segir það hafa komið fram að engin fordæmi séu fyrir málinu. „Við erum búin að liggja yfir málinu mánuðum saman en hún er að koma inn í óundirbúnar fyrirspurnir og ég tel að hún eigi eftir að kynna sér málið betur.“

Ármann segir að kynbundinn óútskýrður launamunur sé minnstur í Kópavogi. „Nú stöndum við frammi fyrir því að við launasettum karlmanninn rangt og það ber að leiðrétta og við höfum gert það og jafnframt greitt bætur fyrir það tímabil sem um er að ræða.“ Bærinn gangist við mistökunum. „Þess vegna þarf að raða þarf karlinum upp á nýtt.“

Ármann segir að farið verði betur yfir auglýsingar núna því háskólanám verði að tengjast starfinu með beinum hætti. 

„Við göngumst við þessu. Það er rétt að við áttum ekki að lækka viðkomandi í launum innan röðunar BHM og þess vegna þarf hann að taka nýjan kjarasamning og það er það sem við í rauninni gerum.“

Ármann segist líta málið alvarlegum augum. „Ég segi alveg eins og er að það hefði verið einfaldast fyrir mig að segja að við unum þessu og borgum þessi sömu laun. En við getum ekki borgað manneskju sem ekki er með háskólapróf laun samkvæmt BHM því þá færi launastrúktur okkar; sveitarfélaga og hins opinbera bara á hliðina.“

Aðspurður hvort hann ætli að fara fram á skýringar frá félagsmálaráðherra segist hann vilja að hún kynni sér málið betur.  „Mér finnst þetta ansi stór orð. Það hefði verið í lófa lagið að hafa samband við okkur og fá okkar álitsgerðir. Ég veit ekki til þess að það hafi verið gert. Mitt fólk hefur legið yfir þessu.“ 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi