Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ráðherra skoðar uppbyggingu að Hofstöðum

15.06.2016 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Svo virðist sem framtíð jarðarinnar Hofstaða í Mývatnssveit sé að ráðast. Umhverfisráðherra hefur skipað starfshóp um mögulega uppbygginu þar og hlustað á hugmyndir áhugafólks um starfsemi á Hofstöðum.

Framtíð Hofstaða hefur verið til umfjöllunar allt frá því ábúendur þar féllu frá árið 2014. Ríkið eignaðist jörðina í kjölfarið og auglýsti til sölu. Það hugnaðist heimamönnum í Mývatnssveit ekki. Hópur áhugafólks um Hofstaði og sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafa varað við því að jörðin verði seld.

Tveggja ára gömul hugmynd um sjálfseignarfélag

Benedikt Sigurðarson, frá Grænavatni í Mývatnssveit, segir um tvö ár síðan hópurinn stakk upp á  því að stofnað yrði sjálfseignarfélag um sjálfbæran rekstur Hofstaða, með það að markmiði að halda utanum eignina. Þannig mætti tryggja að jörðin yrði í almannaeigu og aðgengileg en jörðinni fylgja umtalsverð hlunnindi. Menningarminjar yrðu varðveittar en umfangsmikill fornleifauppgröftur hefur verið á Hofstöðum síðustu ár. Þarna yrðu stundaðar umhverfisrannsóknir og byggt upp fræðasetur.

Starfshópur á að greina möguleika á uppbyggingu

Umhverfisráðherra leggur áherslu á að jörðin verði áfram í ríkiseigu og hefur nú myndað starfshóp sem á að greina möguleika og leggja til hugsanlega uppbyggingu og skipulag Hofstaða. Með því að halda Hofstöðum áfram í ríkiseigu eru taldir möguleikar á því að sameina hér á einum stað, starfsemi allra þeirra ríkisstofnana sem nú starfa í Mývatnssveit. Þarna yrði því öflug miðstöð þekkingar og rannsókna.

Greinilegur vilji að jörðin verði áfram í almannaeigu

Benedikt segir að þessar hugmyndir umhverfisráðherra falli vel að því sem áhugahópurinn sjái fyrir sér á Hofstöðum. „Hún hafði samband við okkur í beinu framhaldi og við höfum verið í góðum samtölum við ráðherrann og ráðuneytið og okkur er heitið því að við verðum virkir þátttakendur í þessu samskiptaferli. Þetta útspil umhverfisráðherra segir okkur að það er greinilegur vilji til þess að tryggja það að Hofstaðir verði áfram í eigu almennings og jörðin aðgengileg þannig og eignirnar reknar í þágu almennings,“ segir hann.