
Ráðherra segist ekki geta mætt kröfum öryrkja
Um fimm hundruð manns, öryrkjar og ellilífeyrisþegar, hafa þurft að greiða háa bakreikninga til Tryggingastofnunar vegna dráttarvaxta á vangreiddar bætur frá Reykjavíkurborg. Fleiri svipuð mál eru í farvatninu. Farið hefur verið fram á að dráttarvextir vegna ógreiddra bóta teljist ekki til tekna, en til þess þarf að breyta lögum. Öryrkjabandalagið vakti fyrst máls á þessu við ráðherra í janúar, sem segir erfitt að bregðast við.
Ásmundur Einar Daðason: „Niðurstaða ráðuneytisins þegar það var búið að skoða þetta var að lagalegi ramminn sem okkur er settur í þessu, að það sé erfitt að bregðast við innan hans, en við erum að skoða hvort það sé hægt að gera eitthvað.”
Fréttamaður: Var ekki hægt að bregðast við fyrr? Þau sendu bréf í janúar sem var ekki svarað.
ÁED: „Við erum búin að svara erindi ÖBÍ, en það breytir ekki lagalega rammanum sem ráðuneytið komst að það væri erfitt að bregðast við innan. Þannig að þannig liggur það.”
Frm: Ertu í raun að segja að það sé lítið hægt að gera fyrir þennan hóp?
ÁED: „Ég er að segja að við erum bundin af ákveðnum lagaramma sem lítur að þessu og það var kallað eftir ákveðnum tillögum af hálfu ÖBÍ. Niðurstaða ráðuneytisins var að það væri ekki mögulegt að verða við því. En við erum að skoða hvort það sé mögulegt að bregðast við með einhverjum hætti.”