Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ráðherra lokar Kumbaravogi

29.12.2016 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að loka dvalar- og hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi við Stokkseyri, í samræmi við tillögu Landlæknis. Vinna er hafin við að finna íbúum heimilisins viðeigandi úrræði.

Frá þessu er greint á vefsíðu velferðarráðuneytisins. Þar segir að Landlæknir hafi gert ítrekaðar athugasemdir við forstöðumann heimilisins um aðbúnað íbúa á heimilinu og krafist úrbóta. Embættið telur að reksturinn uppfylli ekki lágmarkskröfur um mönnun, húsnæði, aðstöðu, tæki og búnað til rekstur heilbrigðisþjónustu. 

Ekki hefur verið brugðist við ábendingum Landlæknis með viðunandi hætti og telur embættið fullreynt að knýja fram úrbætur og að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Innritun nýrra íbúa stöðvuð fyrr í mánuðinum

Velferðarráðuneytið gerði forstöðumanni Kumbaravogs grein fyrir áformum sínum bréfleiðis 12. desember síðastliðinn og gaf honum kost á andmælum. Frá sama tíma stöðvaði ráðuneytið innritun nýrra íbúa. Af hálfu rekstraraðila heimilisins hafa ekki komið fram neinar upplýsingar sem benda til þess að úrbætur séu í farvatninu.

Íbúar á Kumbaravogi eru 29 talsins og unnið er að því að finna þeim viðunandi búsetuúrræði, með þjónustu í samræmi við þarfir hvers og eins, í samráði við þá og aðstandendur þeirra. Áætlað er að síðustu íbúar heimilisins flytji þaðan eigi síðar en 31. mars næstkomandi. 

Þá segir í frétt ráðuneytisins: „Velferðarráðuneytið væntir góðs samstarfs við stjórnendur Kumbaravogs við lokun heimilisins þannig að undirbúningur og framkvæmd þessara breytinga taki í öllum atriðum mið af velferð og öryggi íbúanna og valdi hvorki þeim né aðstandendum óþægindum eða raski á högum þeirra umfram það sem óhjákvæmilegt er við aðstæður sem þessar.“