Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðherra krefst rannsóknar á andláti

29.09.2019 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Mart Helme, innanríkisráðherra Eistlands, hefur krafist þess að lögregla rannsaki andlát Aivar Rehe, fyrrverandi útibússtjóra Danske Bank í Tallinn.

Rehe fannst látinn á miðvikudag, en þá hafði hans verið leitað eftir að hann fór að heiman og sneri ekki til baka. Rehe var útibússtjóri Danske Bank í Tallinn á árunum 2006-2015, en verið er að rannsaka umfangsmikið peningaþvætti í gegnum útibúið á þeim árum. 

Lögregla gaf út eftir að lík Rehe fannst að andlátið yrði ekki rannsakað, en innanríkisráðherrann kallaði eftir því í dag. Helme sagði óeðlilegt að rannsaka ekki andlát manns sem var í hringiðunni í umfangsmikilli rannsókn á heimsvísu.

Talið er að um sex þúsund viðskiptavinir Danske Bank í Eistlandi tengist peningaþvættinu. Misferlið var framið á árunum 2007 til 2015. Jafnvirði 28 þúsund milljarða króna fór gegnum útibúið í Tallinn á þessu tímabili. Líklegt þykir að stór hluti þess fjár tengist peningaþvætti.

Tíu fyrrverandi starfsmenn Danske Bank í Eistlandi voru handteknir í desember síðastliðnum vegna rannsóknar málsins. Þeir voru grunaðir um að hafa haft milligöngu um hin grunsamlegu viðskipti. Ekki er vitað til að Aivar Rehe hafi tengst þessari glæpastarfsemi og hann kvaðst sjálfur ekki hafa haft neina vitneskju um hana.