Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ráðherra fundaði fyrir vestan vegna laxeldis

08.08.2017 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra átti fund með bæjar- og sveitarstjórum á norðanverðum Vestfjörðum um uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi fyrir vestan í morgun.

 

Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar, sem var unnið fyrir nefnd á vegum ráðherrans um stefnumótun í fiskeldi, er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi þar sem áform eru um stórfellt eldi. 

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, segir að fundurinn hafi verið haldinn til upplýsingar þar sem sveitar- og bæjarstjórar komu sínum sjónarmiðum á framfæri. Hann segir ljóst að ráðherra tjái sig ekki um störf nefndar sem er enn að störfum en er ánægður með að ráðherra hafi lagt leið sína vestur til að hlýða á sjónarmið sveitar- og bæjarstjórana. Nefndin á að ljúka störfum um miðjan mánuðinn.

Nýlega sendu sveitar- og bæjarstjórar á norðanverðum Vestfjörðum frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir vonbrigðum sínum með fund sem þeir áttu með nefnd um stefnumótun í fiskeldi, að ekki virðist vera tekið tillit til hagsmuna íbúa í vinnu nefndar.