Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ráðgjöf nauðsynleg í staðgöngumæðrun

24.09.2015 - 21:17
Mikilvægt er að fólk fái góða ráðgjöf þegar konur ákveða að ganga með börn fyrir aðra eða fólk fær konu til að ganga með barn mitt. Þetta sögðu siðfræðingur og félagsráðgjafi í umræðu um staðgöngumæðrun í Kastljósi í kvöld. Umræðan var í tengslum við sögu Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur.

Það gera sér örugglega ekki allar konur sem ætla að verða staðgöngumæður sér grein fyrir því hvað þær eru að fara út í og þess vegna verður að vera ráðgjöf, sagði Helga Sól Ólafsdóttir félagsráðgjafi. „Það er ekkert öllum ætlað að vera staðgöngumóðir. Þrátt fyrir að maður sé góð manneskja og vilji öllum það besta," sagði Helga Sól og lagði áherslu á að bjóða þyrfti upp á ráðgjöf þegar fólk íhugaði staðgöngumæðrun.

Soffía Fransiska Rafnsdóttir Hede, talsmaður Staðgöngu, sagði í umræðunum að á þeim fimm árum sem hún hafi fylgst með þessu hafi hún ekki áður séð sögu eins og þá sem Guðlaug sagði í Kastljósi í kvöld.

Ástríður Stefánsdóttir, læknir og siðfræðingur, segir að ef setja eigi lög um staðgöngumæðrun verði þau að leysa meiri vanda en þau skapa, hún sagðist ekki viss um að svo væri. Ástríður sagði að ef staðgöngumæðrun yrði heimiluð yrði að vera mikil ráðgjöf, það væri meiri kostnaður en hægt væri að leggja á foreldra barnsins. Þess vegna yrði þetta að fara inn í heilbrigðiskerfið og þá væri þetta spurning um forgangsröðun.

Dögg Pálsdóttir, formaður nefndar um staðgöngumæðrun, sagði að við samningu frumvarps um staðgöngumæðrun hefði fyrst verið horft til barnsins, þá staðgöngumóðurinnar og loks foreldranna. Hún sagði að í frumvarpinu tæki staðgöngumóðirin stærstu ákvarðanir í ferlinu og gæti hætt við upp að ákveðnum tímapunkti.