Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Radarmyndir notaðar á einstakan hátt

12.08.2012 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Radarmyndir af upphafi gossins í Eyjafjallajökli gáfu vísindamönnum einstakt tækifæri til að fylgjast með því hvernig ískatlar mynduðust og bræðsluvatnið braut sér leið niður í lón Gígjökuls.

Það var slæmt skyggni fyrstu dagana í apríl fyrir tveimur árum, þegar gosið í Eyjafjallajökli hófst, en það kom ekki að sök fyrir jarðvísindamenn sem voru að fylgjast með þróun þess. Þeir nýttu sér radarmyndavélar um borð í TF SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar sem var farin í loftið að morgni 14. apríl, nokkrum klukkustundum eftir að gosið hófst.

Um fyrstu radarmyndirnar sem teknar voru af gígnum í jöklinum er fjallað í grein sem íslenskir jarðvísindamenn birtu nýlega í virtu vísindatímariti. Þarna gafst einstakt tækifæri til að sjá hvernig ískatlar voru að myndast, nánast í rauntíma, og ummerki um hvernig vatnið ruddi sér leið undir jöklinum.

Radarmyndir sem voru teknar daginn eftir, 15. apríl, vöktu gríðarlega athygli um allan heim. Á þeim mynda þrír ískatlar í gígnum illilegt andlit. Á þessum tíma streymdi gosmökkurinn upp um þessi göt en það sem sést á radarnum eru lóðréttir veggir katlanna sem eru eins og eins konar túður sem mökkurinn ruddist upp um. Á þessum tíma flæddi líka öskublandað bræðsluvatnið í norðurátt, niður í lón Gígjökuls.