Ráðamenn funduðu um dularfullar auglýsingar

28.10.2016 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engin ástæða er til að hafa áhyggjur af efni erlendra auglýsinga sem beinast gegn aðgerðum íslenskra stjórnvalda við afnám hafta, segir seðlabankastjóri. Fundað var um málið í Stjórnarráðshúsinu í morgun.

Bandaríska hugveitan Institute for Liberty hefur undanfarið talað fyrir hagsmunum erlendra kröfuhafa í íslenskum fjölmiðlum með því að birta hverja heilsíðuauglýsinguna á fætur annarri í íslenskum blöðum undir merkjum Iceland Watch, eða Íslandsvaktarinnar.

Í nýjustu heilsíðuauglýsingunni, sem er á blaðsíðu þrjú í Morgunblaðinu í dag, og birtist einnig í blaðinu í gær, er fullyrt að almenningur greiði fyrir opinbera spillingu og mismununarreglur á Íslandi. Auglýsingunni fylgir flennistór mynd af Má Guðmundssyni seðlabankastjóra.

Þar er staðhæft að ákvörðun Seðlabankans um að mismuna fjárfestum við afnám hafta, eftir því hvort þeir eru erlendir eða innlendir, kosti þjóðina jafnvirði allt að þúsund milljarða króna í landsframleiðslu á ári. Einnig er gefið í skyn að háttsettur starfsmaður Seðlabankans hafi gerst sekur um innherjasvik í tengslum við afnám hafta.

Ekki er vitað fyrir víst hverjir fjármagna auglýsingarnar, en erlendir vogunarsjóðir hafa verið nefndir. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra funduðu um herferð bandarísku hugveitunnar í Stjórnarráðshúsinu í morgun, ásamt seðlabankastjóra og embættismönnum.

Már Guðmundsson sagði eftir fundinn að enginn fótur væri fyrir ásökunum á hendur starfsmanni bankans. En er ástæða til að hafa áhyggjur af því sem þarna kemur fram?

„Auðvitað er kannski ástæða til að hafa áhyggjur af því að fólki bara detti í hug að setja svona fram, en það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að neitt sem þarna kemur fram hafi við einhver rök að styðjast, því það gerir það ekki.“

Már segir að Seðlabankinn hafi engar áhyggjur af því að þær girðingar sem hafa verið reistar til að verja íslenskt hagkerfi haldi ekki.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi