Ráðamenn á Filippseyjum æfir út í Ísland

14.07.2019 - 10:09
epa07702709 Philippines Foreign Minister Teodoro Lopez Locsin talks to Vietnam's Foreign Minister Pham Binh Minh (not pictured) at the Government Guesthouse in Hanoi, Vietnam, 08 July 2019. Locsin is on an official visit to Vietnam from 08 to 09 July 2019  EPA-EFE/MINH HOANG
Teodoro Lopez Locsin, utanríkisráðherra Filippseyja Mynd: EPA - RÚV
Ekkert lát er á hörðum viðbrögðum ráðamanna á Filippseyjum eftir að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, UNCHR, samþykkti ályktun Íslands um að manréttindastjóra SÞ verði falið að rannsaka stöðu mannréttinda í landinu í samstarfi við stjórnvöld. Utanríkisráðherra Filippseyja velti því upp á Twitter í nótt hvort landið ætti ekki að feta í fótspor Bandaríkjanna og segja sig úr ráðinu.

Rannsókn mannréttindastjórans á ekki síst að beinast að stríði forseta Filippseyja gegn fíkniefnum sem er talið hafa kostað 20 þúsund manns lífið.  Í ályktuninni eru stjórnvöld hvött til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafi staðið fyrir slíku. „Enn fremur er farið fram á að stjórnvöld á Filippseyjum sýni skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, sem og stofnunum mannréttindaráðsins, fullan samstarfsvilja.“

Ráðamenn á Filippseyjum hafa brugðist ókvæða við ákvörðun mannréttindaráðsins.  Reiði þeirra hefur einna helst beinst að Íslandi þar sem stóru orðin hafa ekki verið spöruð og Íslandi stundum lýst á býsna skrautlegan hátt. Rodrigo Duterte, hinn umdeildi forseti landsins, reið á vaðið og sagði Íslendinga bara borða ís. Hér væri of mikill ís og helsta vandamálið væri að hér væri enginn munur á nótt og degi. 

Teodoro Locsin, utanríkisráðherra Filippseyja, hefur hafnað því að stjórnvöld á Filippseyjum veiti mannréttindaráðinu aðstoð. Hann sagðist um helgina lengi hafa talað fyrir alþjóðlegu samstarfi í baráttunni gegn fíkniefnum en slík aðstoð gæti ekki að komið frá þjóðum „sem baða sig ekki einu sinni á dag og eru líklega á launaskrá glæpasamtaka.“

Locsin tók síðan undir greiningu forseta síns á Íslandi og vandamálum þess. „Þetta var ansi góð greining og hann hitti þarna naglann á höfuðið,“ sagði Locsin. „Þótt þar sé lítil glæpatíðni þá eru framin afbrot þar og mikið skrifað af glæpasögum.“

Öllu alvarlegri voru orð utanríkisráðherrans á Twitter í nótt um að mögulega kynnu Filippseyjar að feta í fótspor Bandaríkjanna.  Bandaríkin sögðu sig úr ráðinu í júní á síðasta ári vegna Ísraels og tók Ísland sæti landsins.  „Við erum ekki með sendiráð á Íslandi og þeir ekki hjá okkur. Ísland tók sæti Bandaríkjanna sem hætti í ráðinu. Mér finnst að við ættum að gera meira eins og Bandaríkin,“ skrifaði utanríkisráðherrann þegar hann var spurður hvernig stjórnvöld ætluðu sér að bregðast við ályktuninni.

Meðal annarra sem hafa gagnrýnt þessa ályktun Íslands er þingkonan Imee Marcos en ættarnafn hennar ætti að hringja einhverjum bjöllum. Hún er dóttir einræðishjónanna Ferdinands og Imeldu Marcos sem réðu ríkjum á Filippseyjum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

Imee hvatti ríkisstjórnina til að slíta öllum stjórnmálatengslum við Ísland og það strax og sakaði löndin sem samþykktu ályktunina um hræsni. Þau gætu ekki fett fingur út í ástandið á Filippseyjum á sama tíma og þau leyfðu „morð á varnarlausum, ófæddum börnum.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi