Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

R-leið samþykkt í skipulagsnefnd

13.01.2019 - 09:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV Grafík - RÚV
Meirihluti í skipulagsnefnd Reykhólahrepps samþykkti í vikunni tillögu til sveitarstjórnar um að R-leið á Vestfjarðavegi verði sett sett inn sem aðalskipulagstillaga og tillaga Eiríks Kristjánssonar felld um að Reykhólahreppur fari Þ-H leiðina. Þetta kemur fram í Bæjarins besta.

 

Vegagerðin hefur sagt Þ-H um Teigsskóg vera vænlegasta og öruggasta kostinn fyrir vegagerð í Gufudalssveit en niðurstaða valkostagreiningar sem var unnin fyrir Reykhólahrepp var að vænlegasti kosturinn væri svokölluð R-leið um Reykhóla og brú yfir Þorskafjörð. Fjölmennt var á kynningarfundi Vegagerðarinnar á Reykhólum í vikunni um vegagerð í Gufudalssveit. 

Í Bæjarins besta kemur jafnframt fram að ljóst sé að tveir af fimm hreppsnefndarmönnum stefni að því að fá R leiðina samþykkta en hinir þrír hafi ekki lýst afstöðu sinni til málsins, svo vitað sé. Gert er ráð fyrir að málið verði afgreitt í vikunni á fundi hreppsnefndar. Þá kemur fram í blaðinu að sveitarfélög annars staðar á Vestfjörðum hafi hvatt hreppsnefndina til að samþykkja Þ-H leiðina. 

Tryggvi  Harðarson, sveitarstjóri í Reykhólahreppi, sagði í samtali við fréttastofu í liðnum mánuði að engin ákvörðun hefði verið tekin um það hvort íbúunum yrði gefinn kostur á að greiða atkvæði milli kostanna í íbúakosningu. Til álita kæmi að gera skoðanakönnun til að kanna vilja íbúa.