Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pyntinganefnd Evrópuráðsins á ferð um Ísland

21.05.2019 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með pyntingum er nú stödd á Íslandi í fyrsta sinn í sjö ár. Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með pyntingum og annarri vanvirðandi meðferð frelsissviptra. Afstaða, félag fanga, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að það hafi fyrir helgi átt fund með nefndinni og að fyrsta spurning nefndarmanna hafi verið hvers vegna fangelsismálastjóri hafi brosað þegar spurt var um hlutverk Afstöðu.

Fulltrúar nefndarinnar geta heimsótt alla staði þar sem fólk er á einhvern hátt svipt frelsi sínu – það geta til dæmis verið fangelsi, meðferðarstofnanir, geðdeildir og aðstaða fyrir hælisleitendur.

Heimsóknir nefndarinnar taka jafnan eina til tvær vikur og yfirleitt eru fimm eða sex nefndarmenn með í för auk starfsmanna. Nefndin mætir oftast fyrirvaralítið á stofnanirnar og hefur víðtækar heimildir til að skoða aðstæður og spyrja spurninga.

Nefndarmenn funda með ráðherrum í lok ferðar en tjá sig ekki opinberlega, nema í formi stuttrar fréttatilkynningar nokkrum dögum eða vikum eftir ferðina. Skýrslu um heimsóknina verður svo skilað að nokkrum mánuðum liðnum.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV