Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Pútín sáttur - Zelensky vildi meira

10.12.2019 - 00:46
epa08058382 Ukraine's President Volodymyr Zelenskiy, German Chancellor Angela Merkel, French President Emmanuel Macron and Russia's President Vladimir Putin attend a joint news conference after a Normandy-format summit in Paris, France, 09 December 2019. The Normandy format was created in 2014 to resolve the conflict between Kiev and the breakaway republics in Ukraine's east.  EPA-EFE/CHARLES PLATIAU / POOL  MAXPPP OUT
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Engin meiriháttar niðurstaða náðist á fyrsta leiðtogafundi þeirra Vladimir Pútíns Rússlandsforseta og Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, í París í dag. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, bauð til fundarins og hafði Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sér til halds og trausts. 

Í sameiginlegri yfirlýsingu að loknum átta klukkustunda fundarhöldum segir að samið hafi verið um vopnahlé og að hersveitir hörfi frá átakasvæðum fyrir mars á næsta ári. Pútín sagði niðurstöðu fundarins mikilvægt skref í friðarátt í austurhluta Úkraínu. Zelensky aftur á móti kvaðst vonsvikinn með að hafa ekki fengið meira út úr fundinum. Hann segir starfssystkin sín hafa greint honum frá því að fundi loknum að þetta væri dágóður árangur eftir fyrsta fund, en hann hafi þó viljað áorka miklu meiru. Næsti leiðtogafundur verður haldinn eftir fjóra mánuði. Þá verður staðan metin út frá samþykktum fundarins í dag.

Hörð átök urðu í austurhluta Úkraínu þegar vopnaðar sveitir hliðhollar Rússum kröfðust sjálfstæðis árið 2014. Skömmu eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga náðu aðskilnaðarsinnar völdum í héruðunum Donetsk og Lugansk. Krímskagi var ekki til umræðu á leiðtogafundinum í París í dag. 

Stefnt var að því á fundinum í dag að hrinda í framkvæmd ákvæðum í samningi sem undirritaður var í Minsk árið 2015. Þar var kveðið á um að draga þungavopn til baka, og að stjórnvöld í Kænugarði fengju aftur völdin yfir eigin landamærum. Þá var samið þar um aukna sjálfsstjórn Donetsk og Lugansk, og kosningar héraðsstjórna þar. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV