Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pútín hótar að svara með árásum á Evrópuríki

25.10.2018 - 01:52
Erlent · Bandaríkin · NATO · Rússland
epa07049000 Russian President Vladimir Putin looks on during a working meeting in the Novo-Ogaryovo residence outside Moscow, Russia, 26 September 2018.  EPA-EFE/MICHAEL KLIMENTYEV/SPUTNIK/KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
Vladimir Pútín Rússlandsforseti. Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Ef Bandaríkjunum dettur í hug að koma nýjum kjarnavopnum fyrir í Evrópuríkjum, geta sömu ríki átt von á gagnárás frá Rússlandi. Þessu hótaði Vladimir Pútín, forseti Rússlands, í dag eftir fund í Kreml með Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu.

Pútín sagði það vera hættulegt að rifta samningi Bandaríkjanna og Rússlands frá 1987 um bann við meðaldrægum flugskeytum sem geta borið kjarnaodda. Bandaríkin telja Rússa hafa brotið gegn samningnum með þróun nýrra flugskeyta. Pútín sagðist eiga von á nýju vígbúnaðarkapphlaupi láti Bandaríkin verða af því að slíta samningnum. „Mikilvægasta spurningin er hvað Bandaríkin ætla að gera við flugskeytin sem þau koma upp ef samningnum verður rift,“ sagði Pútín við blaðamenn í dag. Ef flugskeytunum verður komið fyrir í Evrópu með samþykki Evrópuríkja gætu þau átt von á að Rússar svari með gagnárásum, hefur BBC eftir honum.

Jens Stoltenberg, aðalframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, er sammála Bandaríkjunum um að Rússar hafi að öllum líkindum brotið gegn samningnum frá 1987. Hann sagði bandalagsríki ekki vera að leita eftir átökum, en þau standi þó saman ef ske kynni að einhverju þeirra yrði ógnað.