Pútín eys Kim lofi og Trump jákvæður

In this image made from video released by KRT on Jan. 1, 2018,  North Korean leader Kim Jong Un speaks in his annual address in undisclosed location, North Korea.  North Korean leader Kim said Monday, Jan. 1, 2018, the United States should be aware that
Kim Jong-un ávarpar þjóð sína á nýársdag. Mynd: AP - KRT
Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, hrósar Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, fyrir pólitísk klókindi og stjórnvisku og segir hann standa uppi sem sigurvegara í Kóreudeilunni. Donald Trump, Bandaríkjaforseti, virðist líka hafa skipt um skoðun og segist „líklega“ vera í ágætu sambandi við Kim.

„Kim Jong-Un leysti fullkomlega úr sinni erfiðu stöðu: Hann á kjarnaodd, nú hefur hann líka eldflaug sem dregur 13.000 kílómetra og getur slegið út mögulegan andstæðing hvar sem er,“ sagði Pútín í Moskvu í gær. Og hann var ekkert að spara lofið. Rússlandsforseti sagði hinn norður-kóreska kollega sinn hvort tveggja kænan og yfirvegaðan leiðtoga. Hann hafi haft betur í deilunni um kjarnorku- og eldflaugatilraunir sínar. Því geti stjórnin í Pjongjang nú samið um tilslakanir og dregið úr spennu á Kóreuskaganum á sínum forsendum.

„Hann er hæfur og þroskaður stjórnmálamaður,“ sagði Pútín um hinn 34 ára gamla leiðtoga Norður Kóreu, og klykkti út með að samningaleiðin væri eina leiðin til að leysa deilurnar á Kóreuskaganum.

Það kemur ekki á óvart að Pútín sé hliðhollur granna sínum í Pjongjang, þótt einhverjum kunni að þykja nóg um skjallið. Ummæli sem Donald Trump lét falla um Kim í viðtali við Wall Street Journal koma öllu meira á óvart. „Ég á líklega ágætis samband við Kim Jong-Un,“ segir Trump í viðtalinu; „Ég er í sambandi við fólk. Ég held að þetta komi ykkur á óvart.“ Forsetinn svaraði því ekki beinum orðum, hvort hann hefði rætt við kollega sinn í Pjong Jang.

„Ég segi hvorki að ég hafi gert það eða ekki gert það,“ sagði Trump þegar þetta var borið undir hann. Þetta eru óneitanlega mikil umskipti frá þeim ummælum sem heimsbyggðin á að venjast frá Trump um Kim Jong-Un. Á Twitter hefur Trump kallað Kim leiðtoga glæpagengis, brjálæðing, lítinn fituhlunk og annað miður fallegt, auk þess sem hann hefur hótað að láta eldi og brennisteini rigna yfir norður-kóresku þjóðina.

Kim hefur ekki látið sitt eftir liggja í orðaskakinu og kallað Trump brjálæðing, elliært gamalmenni og fleira í sama dúr og veifað kjarnorkuógninni óspart. Trump gerir lítið úr þessum viðsnúningi og segir þetta alvanalegt. „Þú átt eftir að sjá þetta oft hjá mér,“ segir hann í viðtalinu. Hann eigi það vissulega til að hella sér yfir fólk á Twitter. „En svo, allt í einu, er einhver orðinn besti vinur minn. Ég gæti nefnt þér 20 dæmi um þetta. Og þú gætir nefnt mér 30 dæmi. Ég er mjög sveigjanlegur maður.“ 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi