Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Pussy Riot dómurinn vondur og þungur

18.08.2012 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að dómurinn yfir liðsmönnum rússnesku hljómsveitarinnar Pussy Riot sé afar vondur og þungur. Borgarar í lýðræðisríkjum eigi að geta móðgað valdhafana án þess að eiga það á hættu að vera stungið í dýflissu.

Konurnar þrjár voru dæmdar í tveggja ára fangelsi fyrir óeirðir eftir að þær frömdu gjörning í kirkju þar sem Vladímír Pútín var mótmælt. Fjölmiðlar víða um heim hafa birt fjöldan allan af fréttum í dag og í gær þar sem stjórnmálaleiðtogar, mannréttindafrömuðir og almenningur fordæmir réttarhöldin og dóminn.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í hádegisfréttum að hann fordæmdi niðurstöðuna. Málið ætti erindi í alþjóðlega mannréttindaumræðu.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tekur í svipaðan streng. „Mér finnst hann afar vondur, mjög þungur, og hann kom mér á óvart. Ég satt að segja hélt að Rússland væri á annarri leið heldur en þessi dómur sýnir. Mér sýnist að hann feli í sér þrengingu á tjáningarfrelsi. Vissulega þá móðguðu þessar stúlkur valdhafana með þessum gjörningi, en í lýðræðissamfélagi þá eiga borgararnir að geta móðgað valdhafana án þess að vera stungið í dýflissu. Þannig að ég lýsi hryggð minni yfir þessum atburði,“ segir Össur. 

„Ég vildi óska að rússnesk stjórnvöld virtu mannréttindi borgaranna og tækju þau jafn hátíðlega og þau virðast taka móðganir gagnvart sjálfum sér. Nú liggur fyrir að málinu verður áfrýjað og ég á þá ósk heitasta að þessu máli lykti með því að við þá skoðun málsins þá verði þessi dómur felldur úr gildi,“ segir hann.

Össur segir að íslensk stjórnvöld hafi þegar komið á framfæri þungum áhyggjum af málinu, það hafi verið gert í síðustu viku, áður en dómur var kveðinn upp, á fundi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins og sendiherra Rússlands.